Einhverjir mestu þjóðflutningar sögunnar áttu sér stað í Bandaríkjunum á tuttugustu öld. Það var þegar blökkumenn sem einkum bjuggu í suðrinu fluttu í borgir norðursins: New York, Detroit, Chicago.
En þetta er ósköp smátt miðað við það sem gerist í Kína. Það eru þjóðflutningar sem toppa allt.
Á tíma Maós bjuggu 90 prósent Kínverja í sveitum. Þetta hlutfall hefur algjörlega snúist við og nú er þróunin að verða sú að fleiri Kínverjar búa í borgum en sveitum. Talið er að innan fárra áratuga verði hlutfallið 70 á móti 30 prósent. Kínverjar eru nú 1,3 milljarðar.
Þetta skapar gríðarlegt álag á borgir eins og Shanghai þar sem verið er að reisa endalausa íbúðaturna. Hættan á umhverfisspjöllum er hrikaleg.
Um daginn horfði ég á heimildarmynd í sjónvarpinu þar sem var meðal annars fjallað um hina svokölluðu Þriggja gljúfra stíflu í Yangtze-fljóti.
Til að byggja stífluna þurfti að reka á brott milljón manns. Allmargar smáborgir voru yfirgefnar, íbúunum var greitt fyrir að rífa þær til grunna. Og svo flyst fólkið burt til borganna.