Dómstóll í Chicago í Bandaríkjunum hefur staðfest dóma yfir blaðaútgefandanum Conrad Black sem um tíma var mjög umsvifamikill beggja vegna Atlantsála. Hann er í hópi frekar vafasamra náunga sem hafa staðið í blaðaútgáfu í Bretlandi. Black var útgefandi Daily Telegraph og The Spectator áður en hann lenti í klóm réttvísinnar. Hann er dæmdur fyrir stórfelldan fjárdrátt og fyrir að nota sjóði almenningshlutafélags eins og þær væru sínir eigin.
Robert Maxwell var þorpari og ævintýramaður sem hvarf af snekkju sinni við Kanaríeyjar eftir að útgáfufyrirtæki hans hafði ratað í miklar ógöngur. Kannski svipti hann sig lífi – kannski var hann myrtur. Svo er það Richard Desmond, sem gaf út blöð eins og Big Ones, Posh Housewives og Asian Babes, áður en hann keypti útgáfufyrirtækið Express Newspapers sem meðal annars gefur út Daily Express.
Frægastur er svo Rupert Murdoch sem er svo valdamikill að helst má jafna því við skúrkana í James Bond myndum. Murdoch er eigandi sjónvarpsstöðva eins og Sky og Fox News og dagblaða eins og The Sun og The Times. Honum tókst rækilega að eyðileggja trúverðugleika síðarnefnda blaðsins sem var eitt það elsta og virðulegasta í heimi. Ferill Murdochs sýnir að hann er beinlínis hættulegur lýðræðinu.
Conrad Black sem þarf að dúsa bak við lás og slá var af dálítið öðrum toga en þessir menn. (Murdoch þykir argasti plebbi!) Hann er vel menntaður, féll svo vel inn í kerfið í Bretlandi að hann var gerður að lávarði þrátt fyrir að vera fæddur í Kanada, hefur skrifað þykkar ævisögur um Bandaríkjaforsetana Roosevelt og Nixon.
Síðari bókin sem þykir mikið afsökunarrit fyrir Tricky-Dicky. Sækjast sér um líkir.
Vandi Blacks var sá að hann taldi sig vera hafinn yfir lög og rétt – og hérumbil allt annað fólk. Drambið varð honum að falli á endanum. Hann taldi sig geta notað útgáfufyrirtækið Hollinger eins og það væri einkafyrirtæki sitt. Hann og kona hans, sjónvarpskonan Barara Amiel, bárust mjög á – fræg eru þau ummæli hennar að nauðsynlegt sé að eiga tvær einkaþotur, önnur gæti jú verið upptekin annars staðar.
Dæmigerð fyrir hroka mannsins eru orð úr tölvupósti sem notuð voru gegn honum í réttarhaldinu:
„I´m not prepared to re-enact the French Revolutionary renunciation of the rights of nobility. We are the proprietors, after all.“
Við erum eigendurnir. Við megum allt.
Black vildi lifa eins og aðalsmaður. Hann hefur lýst þeim sem hafa sótt að honum í dómskerfinu sem „nasistum“ og „pigmíum“. Nú þarf hann að súpa seyðið af þessu. The Guardian, sem hefur lengi haft horn í síðu Blacks, sagði að hann mætti vænta þess að vaska upp, raka laufi og deila klefa með öðrum föngum næstu árin. Það er dálítið erfitt eftir allt bílífið.
(Bendi svo á ansi skemmtilega samantekt á fleygum orðum úr munni Conrads Black. Hann má eiga það að hann getur verið orðheppinn. Myndin að ofan er af Black og Amiel þar sem þau koma á grímudansleik og hefur öðlast mikla frægð.)