Einn merkasti stjórnmálamaður Frakklands síðustu áratugi, Michel Rocard, verður gestur í Silfri Egils á morgun. Rocard var forsætisráðherra á árunum 1988 til 1991, í stjórnartíð Mitterrands forseta. Þeim samdi þó aldrei – eins og frægt varð, en báðir komu þeir úr flokki sósíalista. Rocard hefur síðustu ár verði sérstakur sendiherra Sarkozys forseta og fer með mál sem tengjast heimskautasvæðunum. Þegar ísinn bráðnar á Norðurpólnum verða þessi málefni mjög aðkallandi, því þarna opnast möguleikar á olíu- og námavinnslu, siglingum og fiskveiðum, en einnig er hætta á miklum umhverfisspjöllum. Ísland er rétt sunnan við pólsvæðið – og þetta mál tengist líka umsókn okkar um aðild að Evrópusambandinu.
Rocard nýtur mikilla vinsælda og virðingar í Frakklandi, hann hefur þótt vera óvenju heiðarlegur og hreinskiptinn stjórnmálamaður – og kannski galt hann þess stundum á stjórnmálaferli sínum.
Af öðrum gestum í þættinum má nefna Njörð P. Njarðvík og Andra Geir Arinbjarnarson.