Styrmir Gunnarsson veltir fyrir sér hvort verði til teboðshreyfing á Íslandi, og þá sérstaklega í tengslum við andstöðuna við aðild að ESB.
Nú er teboðshreyfingin bandaríska dálítið sérstök. Hún er að sumu leyti sjálfsprottin, en það hefur líka verið bent á að auðvaldsöfl hafi á henni velþóknun.
Teboðshreyfingin er á móti sköttu, hún er á móti almannatryggingum og sjúkratryggingum, hún aðhyllist almenna byssueign og er á móti fóstureyðingum. Milli teboðshreyfingarinnar og ofsatrúarhópa eru gagnvegir.
Styrmir telur að teboðs sé helst að vænta hér á landi hjá stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins og VG – ef þessir flokkar fara að verða veikir fyrir ESB aðildinni.
Hann vísar meðal annars til málefnaþings hjá VG um daginn en þar var birt áskorun frá flokksfélögum þar sem var hvatt til að aðildarviðræðum við ESB yrði slitið.
Í þessum hópi voru Hjörleifur Guttormsson, Árni Bergmann, Hjalti Kristgeirsson. Árni Björnsson, Helgi Seljan, Loftur Guttormsson, Ragnar Stefánsson, Kjartan Ólafsson, Ragnar Arnalds, Margrét Guðnadóttir, Ólafur Þ. Jónsson – allt gamalt baráttufólk úr hreyfingu sósíalista og varla neitt teboð.