Það er dálítið bratt þegar forstjóri olíufélags segir að bókabransinn á Íslandi sé „staðnaður“.
Nú er ljóst að Ísland er land þar sem er gefið út óvenju mikið af bókum – eiginlega fáránlega mikið miðað við stærð landsins. Og ekki græða allir á bókaútgáfunni sem leggja hana fyrir sig, enda engin von til þess á svona litlum markaði.
En miðað við fólksfjöldann seljast bækur hér í risaupplögum. Bækur Arnalds fara hæglega í tuttugu þúsund eintökum. Útgáfan fyrir jól er mjög lífleg og nú má segja að sé komin önnur bókavertíð á vorin. Kiljur eru gefnar út allt árið.
Bókaverslanir eru víða – í miðborg Reykjavíkur eru fjórar bókabúðir sem eru opnar fram á kvöld.
Fyrir jólin eru bækur svo líka seldar í Bónus og öðrum stórmörkuðum, þannig má að sumu leyti segja að þær fleyti rjómann af – og að þetta sé pínu óréttlátt gagnvart þeim sem selja bækur allt árið í kring.
En að þetta sé eitthvað „staðnaðra“ en verslun með bensín – og sjoppureksturinn sem tíðkast í kringum hana – ja, það held ég bara ekki.