Það kemur þungur blaðapakki hér inn um lúguna á þessum föstudegi og ýmislegt bitastætt í blöðunum.
Heiðar Már Guðjónsson segir á forsíðu Fréttatímans að hann sé með áhugasama aðila sem séu tilbúnir að fara í samstarf við Landsvirkjun um að leggja sæstreng til Evrópu – þetta sé verkefni upp á 450 milljarða króna.
Inni í blaðinu er viðtal við Heiðar og þar segir hann að eins sé hægt að nota sígarettur sem gjaldmiðil á Íslandi og krónununa.
Hannes Pétursson skáld er líka í viðtali í blaðinu – það er ekki oft að maður sér hann í fjölmiðlum – og segir að þverpólitíkin gegn ESB sé rekin af hægrisinnuðum og vinstri sinnuðum gaddhestum úr kalda stríðinu. Það er rithöfundurinn Jón Kalman Stefánsson sem tekur viðtalið.
Í Fréttablaðinu les maður um fulla laganema á Þingvöllum sem hafa verið áminntir fyrir hegðun sína, en DV segir frá því að bækur Jónínu Ben og Björgvins G. Sigurðssonar verði eingöngu seldar á bensínstöðvum N1.
En hvað með þá sem fylla á tankinn hjá Olís og Skeljungi – fá þeir ekkert að lesa?