Aðalefni Kiljunnar í kvöld er heimsókn á Þórbergssetrið á Hala í Suðursveit.
Þetta er einstakur staður, sýningin er sérlega haganlega uppsett – bærinn stendur þar sem er stutt milli fjalls og fjöru, en í vestri blasir við hæsta fjall Íslands, Öræfajökull. Þetta var afskekkt sveit og segja má að fólkið hafi verið sérkennilegt, myrkfælni var til dæmis útbreidd og ýmislegt háttarlag sem má lesa um í bókum Þórbergs. Tengslin við náttúruna voru afar sterk – en einnig var þarna lifandi sagnaenning. Á báðar hendur voru stórfljót, það var ekki auðvelt að ferðast í og úr Suðursveit og langt í næsta kaupstað. Franskir skútusjómenn sem voru á veiðum undan ströndinni voru oft nær en aðrir Íslendingar.
Að sumu leyti má segja að Þórbergssetrið geymi lykilinn að Þórbergi – æsku hans, uppeldi, menninguna sem hann ólst upp við. Um leið verða þær lifandi fyrir manni Suðursveitarbækur hans sem hafa verið nokkuð vanmetnar, bók eins og Steinarnir tala öðlast nýtt líf í huga lesandans – og það blasir við hvílík meistaraverk bókin er.
Í þættinum verður líka fjallað um skáldsöguna Allt fínt…en þú? eftir Jónínu Leósdóttur og Snjóblindu eftir Ragnar Jónasson og ljóðabókina Vetrarbraut eftir Kjell Espmark sem var þýdd á íslensku af Nirði P. Njarðvík.
En Bragi heldur áfram umfjöllun sinni um presta.