Gunnar Tómasson, hagfræðingur í Bandaríkjunum, er höfundur þessa pistils.
— — —
Sæll Egill.
Pistill Jóhannesar Björns á bloggi þínu í gær (Setti Seðlabankinn Ísland á
hausinn?) varð tilefni beiðni sem ég fékk í dag „um [útskýringu á því]
furðulega háttarlagi að skrá lán í íslenskum krónum sem gjaldeyri”.
Í fljótu bragði sýnist mér að þetta háttarlag hljóti að eiga rætur að rekja
til stofnunar Seðlabanka Íslands fyrir hálfri öld (1961). Áður gegndi
Landsbanki Íslands hlutverki seðlabanka úr „skúffu” , þ.m.t. varðveizlu
gjaldeyrisforða þjóðarbúsins. Þetta gaf viðskiptabankadeild Landsbankans
tækifæri til ábatasamra endurlána á hluta forðans og/eða andvirði erlendra
lána sem komu í „seðlabankaskúffuna”.
Þessi tilgáta kann að skýra viðbrögð fyrrverandi bankastjóra Landsbankans
þegar ég nefndi við hann fyrir aldarfjórðungi að skv. Hagtölum Seðlabanka
Íslands hefðu 2/3 hlutar af útlánaaukningu Landsbankans á nýliðnu 12 mánaða
tímabili verið fjármagnaðar með erlendu lánsfé. Bankastjórinn sagði þetta
vera alrangt; útlán bankans væru ekki fjármögnuð með erlendu lánsfé. Við
ræddum málið ekki nánar, en hann kann að hafa litið á Landsbankann sem
tengilið milli erlendra lánveitenda og viðskiptavina bankans sem taka
krónulán með gengisviðmiðun frekar en sem beinan lánveitanda.
Ef tilgátan er rétt, má ætla að „skráning lána í íslenskum krónum sem
gjaldeyri” hafi upphaflega verið ávöxtur málamiðlunar milli misvísandi
sjónarmiða við stofnun Seðlabanka Íslands. Á alþjóðavettvangi er eitt
meginhlutverk seðlabanka að tryggja að erlendar lántökur innlenda
fjármálakerfisins séu ætíð innan hæfilegra marka miðað við
gjaldeyrisvarasjóð þjóðarbúsins og aðgengi seðlabanka að erlendum
lánsfjármagni. Skráning krónulána sem gjaldeyriseign kann að hafa gert
Landsbankanum kleift að halda áfram viðskiptum sem hann hefði ella þurft að
hætta vegna reglna Seðlabankans um gjaldeyrisjöfnuð.
Fram að einkavæðingu ríkisbankanna skipti ekki meginmáli að „furðulega
háttalagið” var í landslögum, sbr. 13. gr. laga nr. 36/2001: „Seðlabanka
Íslands er heimilt að setja lánastofnunum reglur um gjaldeyrisjöfnuð. Í
slíkum jöfnuði skal auk gengisbundinna eigna [þ.m.t.. krónulán með
gengisviðmiðun – innskot] og skulda telja skuldbindingar og kröfur sem
tengdar eru erlendum gjaldmiðlum utan efnahags, svo sem framvirka samninga
og valréttarsamninga. ”
Eftir einkavæðingu ríkisbankanna horfði málið öðru vísi við – yfirstjórn
Seðlabanka Íslands gat ekki lengur tekið upp símann og beðið bankastjóra
vinsamlegast að fara að öllu með gát varðandi erlendar lántökur til að
fjármagna krónulán með gengisviðmiðun. Eftir samþykkt Alþingis á lögum nr.
38/2001 um vexti og verðtryggingu, sem bannaði slíka gengisviðmiðun, hefði
þurft að breyta 13. gr. laga seðlabankalaga um gjaldeyrisjöfnuð bankanna
til samræmis við breytt landslög. Það hefði haft í för með sér umtalsverðar
– og kostnaðarsamar – breytingar á ólöglegum lánasamningum bankanna.
Yfirstjórn Seðlabanka Íslands kaus að láta slag standa.
Kv.
Gunnar