Hún er dálítið fyndin umræðan um símaskrána.
Nafni minn, Egill sem kallar sig Gilzenegger, hefur verið fenginn til að vera eins konar andlit símaskrárinnar.
Sjálfur hef ég ekki séð símaskrá í mörg ár. Er þó í starfi þar sem ég þarf mikið að hringja. Ég held að mörg börn og unglingar viti varla hvað símaskrá er.
Markhópur Egils Gilz eru börn og unglingar. Hann var í nokkuð vel heppnuðum sjónvarpsþáttum sem nefnast Ameríski draumurinn. Áhorfendahópurinn var mjög ungur – sonur minn og vinir hans máttu ekki missa af þætti.
En markhópur símaskrárinnar er mun eldri. Ég myndi halda að hann sé yfir fimmtugu – ef ekki ennþá eldri.
Mér er reyndar bent á annan hóp fólks sem líklega notar símaskrána – það eru sölumenn.
En í ljósi þessa, væri ekki einhver gamall og huggulegur skemmtikraftur heppilegra andlit símaskrárinnar, kannski Ragnar Bjarnason eða Ómar Ragnarsson?