Bogi Ágústsson var með mjög forvitnilega frétt í sjónvarpinu í gær um ástandið á Írlandi eftir efnahagshrunið þar. Það var mikið talað um landflótta, skiljanlega, því fáar þjóðir hafa orðið jafn illa fyrir barðinu á landflótta og Írar.
Írar eru taldir hafa verið rúmlega 8 milljónir fyrir hungursneyðina miklu sem geisaði í landinu milli 1845 og 1849. Margir dóu úr hungri og þetta varð upphafið að miklum landfótta. Fólksfjöldinn hélt áfram að minnka alveg fram til 1961 – og landið hefur ekki enn náð sama fólksfjölda og á fyrri hluta 19. aldar.
Íbúar Írlands eru nú rúmlega sex milljónir þegar bæði ríkin á eyjunni eru talin. En það er ætlað að í heiminum séu sjötíu milljónir manna sem eru af írskum ættum.
Fólksflóttinn var aðallega til Ameríku, enda er stór hluti bandarísku þjóðarinnar af írskum ættum. En leiðin hefur líka legið til Englands og Evrópu. Þangað fóru írskir menntamenn eins og James Joyce og Samuel Beckett sem þoldu ekki við í hinu þröngsýna írska samfélagi sem var gegnsýrt af kaþólsku, þjóðernisrembingi og hindurvitnum. Það var þetta sem Brendan Behan talaði um þegar hann sagði að það væri skylda hvers rithöfundar að svíkja þjóð sína.
Og fólkið hélt áfram að fara burt, alveg þangað til á tíma írska efnahagsundursins – sem beið skipbrot árið 2008.
Ég ferðaðist mikið um Írland á áttunda áratug síðustu aldar. Þá var það fátæktarbæli, þrúgað af minnimáttarkennd, drykkju, kaþólsku kirkjunni og vitlausri pólitík. Síðar kynntist ég fjölda Íra þegar ég var við nám í París. Þeir voru í raun flóttamenn undan fátæktinni og afturhaldinu og ekki síst undan kirkjunni. Ég drakk bjór með þessum Írum, og það var skemmtilegt. En undir glaðværðinni var oft einhver harmur – og flestir voru þeir stuðningsmenn IRA.
Það var algengt að stúlkur sem höfðu lent í því að eignast barn utan hjónabands á Írlandi flyttu úr landi. Þetta þótti slík hneisa á þessum árum.
Upp úr 1990 fór ég að frétta að þessir vinir mínir hefðu margir snúið til síns heima. Til dæmis Johnny sem var frá bænum Dingle á vesturströnd Írlands, í Kerry héraði. Hann var úr hinum fámenna írska minnihluta sem hefur gelísku að móðurmáli, en vegna þess að hann var samkynhneigður var honum varla vært á Írlandi.
Margir höfðu rómantískar hugmyndir um Kerry. Þar er fögur en hrjúf náttúra, Atlantshafið svarrar fyrir utan, og söngvarnir eru frægir. En í raun var það sorglegt. Fólk á svæðinu var nánast hætt að eignast börn. Þau sem þó komu í heiminn flýttu sér burt eins fljótt og hægt var. Héraðið var fullt af ógiftum körlum með sixpensara á kollinum sem eyddu lífi sínu á kránum. Þegar ég var þarna fyrst var mér sagt að karlar væru taldir unglingar af mæðrum sínum þar til þeir yrðu fimmtugir.
Þetta hafði auðvitað sinn sjarma, þ.e. fyrir aðkomumann. Því ekki hefði maður viljað búa þarna. Það var gaman að labba þarna um sveitirnar og heyra tónlistina og kliðinn úr lágreistum kránum.
En þegar efnahagurinn batnaði fór fókið að koma aftur – eða sleppti því að flytja. Ein ástæðan var sú að Írland glataði sérstöðunni. Tök kaþólsku kirkjunnar linuðust – það fóru að birtast fréttir um viðurstyggilegt athæfi hennar, barnaníð, heimili þar sem stúlkur voru lokaðar inni. Það streymdi inn fé, bæði frá Evrópusambandinu og Bandaríkjunum – Írland varð nútímalegt ríki á örskömmum tíma.
Velmegunin hafði líka þau áhrif að komst á friður á eyjunni grænu. Írar fóru að gleyma öllum harminum vegna kúgunar Englendinga – það fjaraði mjög fljótt undan Írska lýðveldishernum og öllu því úr sér gengna rugli.
Johnny sneri aftur til Dingle, heimabæjar síns. Hann var góður drengur. Ég frétti fyrir nokkrum árum að hann hefði dáið úr krabbameini.
En kannski voru breytingarnar of örar, og Írar of grandalausir. Bankar og fjármálastofnanir fengu að leika lausum hala og hafa sett landið á hausinn. Peningar urðu hin nýju trúarbrögð á Írlandi, um tíma stímdi það fram úr erkióvininum Englandi. Svo brást þessi guð. Það er mikil reiði í landinu – eins og á Íslandi. Og nú er hætta á að fólkið fari aftur að flytja burt. Fyrir Íra er það tilhugsun sem minnir á vonda og gamla tíma.