Þegar ég var ungur fannst mér ég þurfa að komast yfir að heyra allt, lesa allt og sjá allt. Svo skilur maður að það er ekki hægt. Bókahillur heimsins eru of stórar, söfnin of tröllaukin. Ég gekk um sali erlendra safna og fannst ég þurfa að skoða hverja einustu mynd.
Nú skil ég að þetta er ekki hægt. Ég fer inn á söfn og skoða bara eina og eina mynd. Það er mannbætandi, í því er viss slökun, maður verður kannski einhvers vísar. Stundum kemst maður jafnvel í tæri við alvöru snilligáfu, eins og í tilfelli Van Goghs. Ég horfi á myndirnar hans og finnst það alltaf jafn mikil ráðgáta hvaðan listsköpun hans er komin, hvaðan hún er þessi birta.
Ég fór í National Gallery í London í gær. Hef ekki komið þangað síðan ég var átján ára og skoðaði allar myndirnar. Nú voru það aðallega tvær sem ég staldraði við. Önnur er eftir Van Gogh. Hveitiakur með sýpressum við St. Rémy í Frakklandi:
Hin er eftir Þjóðverjann Caspar Friedrich David, full af dulúð, vegmóður flækingur hallar sér upp við stein í vetrarlandslagi, en að baki gnæfa turnar gotneskrar dómkirkju og í trjárjóðri stendur kross. Dásamlega rómantískt.