Það er víðar en á Íslandi að allt nötrar vegna niðurskurðar.
Í Frakklandi hafa staðið yfir mótmæli í sex daga vegna hækkunar eftirlaunaaldurs – það safnast upp ruslahaugar í Marseille og víða er eldsneytisskortur.
Í Bretlandi verða í dag lögð fram fjárlögin sem beðið hefur verið eftir. Í þeim er að finna einhvern róttækasta niðurskurð sem hefur þekkst í nokkru ríki. Verkalýðsfélög boða til mótmæla, en hópur stórforstjóra skrifar bréf í blöðin og fagnar niðurskurðinum.
Skuldir breska ríkisins eru óskaplegar. Sumir óttast samt að niðurskurðurinn geti hamlað efnahagsbata leitt til kreppuástands, svokallaðrar tvöfaldrar dýfu.
Á Íslandi erum við að horfa upp á svipað ástand og svipaða umræðu – þótt hún sé miklu tilviljanakenndari en í Bretlandi. Á Íslandi vantar oft mikið upp á góða greiningu, en það er ljóst að ef ekki verður gripið til erfiðra úrræða mun vaxtakostnaður ríkissins verða hemill á framþróun næsta áratuginn.