Vilhjálmur Ari Arason heimilislæknir, sem bloggar hér á Eyjunni, skrifar afar greinargóða yfirlitsgrein um ástandið í heilbrigðisþjónustunni, niðurskurð á spítölum úti á landi, landflótta heilbrigðisstarfsfólks, heldur slælegt ástand heilsugæslunnar í Reykjavík og fyrirhugaða byggingu hátæknisjúkrahúss. Um hana segir Vilhjálmur:
„Og væri ekki skynsamlegra að reyna að að halda í mannauðinn og verja þjónustuna sem þegar er fyrir hendi heldur en t.d. halda áfram með tugmilljarða króna byggingaráform nýs Landspítala sem Lífeyrissjóðirnir eru búnir að lofa að fjármagna á næstu árum, hátæknispítala sem stæði þá tómur um ókomin ár. Samgöngukerfið byggjum við upp til framtíðar með miklum kostnaði og borum jafnvel jarðgöng gegnum fjöll fyrir fáfarna vegaslóða úti á landi, landsbyggðarfólki til heilla. Heilbrigðisþjónustuna hefur tekið langan tíma að byggja upp, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu með sjálfan Landspítlann Háskólasjúkrahús í fararbroddi þangað sem allar leiðir liggja. Fátt er okkur mikilvægara í mestri neyð lífsins.“