Það er mikil umræða um fjölmenningarsamfélög, ekki síst í Þýskalandi. Hagfræðingurinn og kynþáttahatarinn Thilo Sarrazin komst meira að segja á forsíðu Der Spiegel um daginn. Og nú talar Angela Merkel um að fjölmenningin hafi ekki gengið upp.
Þegar er talað um fjölmenningarsamfélög er átt við samfélög þar sem fólk af mörgum kynþáttum býr saman.
Svona samfélög eru til víða um heim og gengur sums staðar ágætlega. Bandaríkin eru slíkt fjölþjóðasamfélag og Brasilía. Sumar borgir eru líka fjölþjóðlegri en aðrar, líkt og New York og London. Þar er algjör hrærigrautur fólks af ólíkum uppruna, og það er einmitt það sem gerir þessar borgir skemmtilegar.
Evrópa á engan annan kost en að horfast í augu við orðinn hlut. Í Evrópulöndum býr mikill fjöldi fólks sem er upprunninn í öðrum heimsálfum, fólk sem kom úr gömlum nýlendum eins og í Bretlandi og Frakklandi – þar er fjölþjóðasamfélagið bein afleiðing nýlendustefnunnar – og fólk sem hefur komið til að vinna. Þetta fólk er ekki á leiðinni burt, og engum nema örgustu rasistum dettur í hug að reka það burt. Brottrekstur af því tagi mundi þýða hrun siðmenningar okkar.
Það þótti nógu gott meðan næga vinnu var að hafa – eða eins og rithöfundurinn Max Frisch sagði: „Við þurftum vinnuafl, en við fengum fólk af holdi og blóði.“