Það segir að til standi að leigja út turnsjoppuna gömlu sem nú er komin á Lækjartorg eftir langt ferðalag.
En í raun blasir við hvað væri best að gera þarna.
Hafa þetta sem miðstöð fyrir sölu miða í leikhús, tónleika, óperu og á sýningar.
Líkt og tíðkast víða erlendis.
Þetta gæti bæði verið þægilegt fyrir borgarbúa – og hugsanlega gæti þetta trekkt fleiri ferðamenn að menningarviðburðum í borginni.
Svo má geta þess að turninn var teiknaður af Rögnvaldi Ólafssyni, var reistur árið 1907 fyrir konungskomuna. Hann stóð á Lækjartorgi í tíu ár, var svo fluttur neðst á Arnarhól þar sem hann stóð lengst af, allt til 1972.
Þá var hann fluttur á Árbæjarsafn – þá var stefnan að rífa öll gömul hús, leyfa þeim að brenna eða flytja þau í Árbæ – en nokkrum árum síðar var hann endurbyggður og fluttur niður í bæ aftur. Stóð lengst af nálægt Miðbæjarskólanum, en svo var það eitt af kosningaloforðum Besta flokksins að flytja hann aftur á Lækjartorg.
Turninn var kallaður „Söluturn“ og fljótt skapaðist sú hefð að kalla sjoppur „söluturna“ þótt þær væru alls ekki í turnlíki. Líklega var þetta þýðing á orðinu „kiosk“ sem er nafn á tegund bygginga sem tíðkuðust í ríki Ottómana. Kiosk varð svo alþjóðlegt orð yfir litlar sölubúðir – en dæmi eru um íslensku þýðinguna „kjóskur“.
Orðið sjoppa var þó frekar notað í alþýðumáli, en það var einfaldlega dregið af enska orðinu „shop“. Sjoppur breiddust mjög út á stríðsárunum og stóð blómatími þeirra fram yfir 1980. Þá breyttust margar sjoppur í vídeóleigur. Nú hafa sjoppur sem voru á hverju horni tínt tölunni og eru bensínstöðvar orðnar nokkurs konar sjoppur í staðinn.
Á sínum tíma var mikið kvartað undan sjoppumenningu og sjoppuhangsi. Kvað svo rammt að þessu að um tíma, í kringum 1970, var í gildi reglugerð sem bannaði sjoppueigendum að selja vörur sínar nema í gegnum lúgu. Þetta var gert til að stemma stigu við sjoppuhangsi barna og fullorðinna – þá var eiginlega búið að binda svo um hnútana að fólk gat hvergi komið saman í bænum nema á skipulögðum samkomum (t.d. á fundum stjórnmálaflokka, átthagafélaga, skátanna eða kóræfingum), því engar voru krárnar í þá daga.
Um þetta allt mátti fræðast í sjónvarpsþætti sem ég gerði árið 1989 og fjallaði um sjoppumenningu. Sá þáttur mun nú vera glataður – a.m.k. finnst hann ekki í safni RÚV.
En hugmyndinni hér að ofan er semsagt komið á framfæri: Notum turninn sem leikhús- og tónleikamiðasölu.
Söluturninn fékk að vera á Lækjartorgi um tíma á áttunda áratugnum. Takið eftir að bygging Seðlabankans er ekki enn risin. Eftir á að hyggja er ekki víst að hún hafi verið til bóta. Hún er eiginlega ferlega ljót.