Hrönn skrifar þessa grein.
— — —
SAMTÖK LAUNAFÓLKS: FYRIR HVERJA?
Í umræðunni um skuldavanda heimilanna hefur varla heyrst múkk frá heildarsamtökum launafólks. Það sem þó heyrist er engan veginn hliðhollt skuldugum heimilum. Engu er líkara en allt sé í lukkunnar velstandi hjá félagsmönnum samtakanna – þar virðist enginn skulda krónu og kannski hefur bara enginn tekið húsnæðislán.
En er raunveruleikinn sá að félagsmönnum ASÍ, BSRB, KÍ og BHM komi vandi heimilanna ekkert við, er þetta kannski allt heimilislaust fólk? Svo er ekki en til hvers eru þá þessi samtök? Getur verið að launamannaforystan svonefnda, sem í raun samanstendur af örfáum einstaklingum, sé upp fyrir haus í einhverjum öðrum verkefnum en að vinna að bættum kjörum félagsmanna sinna? Svarið er því miður já. Svokölluð verkalýðshreyfing hinna örfáu einstaklinga sem öllu ráða er nú nánast ekkert annað en sjóða-samlag.
Baráttan snýst fyrst og fremst um það að búa til nýja sjóði til að möndla með og skammta úr í samvinnu við atvinnurekendur og byggja upp sameiginlegt stofnanabákn, mennta- og styrkjabatterí og nú nýlega eitthvað fyrirbæri sem kallast Virk og mun víst vera hálfgert heilbrigðisbatterí. Þarna taka forkólfarnir nefndarlaun ofan á föstu ofurlaunin sem þeir hirða úr vösum launafólks. Samið er um 2% hækkun fyrir láglaunafólk með innan við 200 þúsund krónur á mánuði en megináherslan lögð á stofnun nýrra sjóða og hærri framlaga í þá gömlu. Hluti þessa er svo dreginn af kaupi fólksins.
Stundum kemur þó fyrir að blásið sé í herlúðra. M.a. kann verkalýðsforystan vel að hneykslast á „ofurlaunum“ annarra. Frægt var hér um árið þegar ASÍ hafði forystu um að mótmæla launahækkunum til þingmanna og ráðherra. Kannski virðingarvert framtak hjá Alþýðusambandinu og margir létu verkalýðsrekendur plata sig til mótmæla á Austurvelli. Eða hvað kom í ljós þegar Gylfi Arnbjörnsson, sem þá gegndi stöðu framkvæmdastjóra ASÍ, var spurður af fréttamanni Sjónvarps hvað hann væri sjálfur með í laun? Jú, siðferðisstigið birtist okkur þar berrassað – hann sagðist ekki muna það. Nokkrir dagar liðu þar til launatölurnar komu upp á yfirborðið. Gylfi mótmælandi var ekki bara með laun á við þingmann, hann var betur launaður en ráðherra. Og það er hann enn, og sama gildir um ýmsa aðra forystusauði launþega. Svona eru nú kröfurnar og siðferðið þegar aðrir eiga í hlut, þarna birtist í hnotskurn siðferði og heiðarleiki hinna örfáu verkalýðsrekenda nútímans sem öllu ráða. Þarna kristallast líka „hugsjónirnar“ á bak við stóru orðin, öskrin og orðaflauminn á hátíðarstundum: Öskrin um spillt samfélag, arðræningja, þjófa og bófa annars vegar og svo hins vegar innantómt gaulið um fyrirheitna landið, þjóðfélag frelsis, jafnréttis og bræðralags. Reyndar var Gylfi baulaður svo rækilega niður á 1. maí á Austurvelli 2009 að hann heyrði ekki einu sinni í sjálfum sér. Vonandi verður svo áfram.
Ömurlegt er líka að horfa upp á hvernig BSRB hefur þróast á skömmum tíma, eða hvað gerðist sumarið 2009? Rétt er að rifja það upp. Þá skrifuðu forkólfar bandalagsins undir hinn margrómaða stöðugleikasáttmála sem fól í sér meiri niðurskurð á ríkisútgjöldum en sjálfur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lét sig dreyma um að hægt yrði að knýja í gegn. Síðan þetta gerðist hafa öðru hvoru komið velgjulegar ályktanir úr herbúðum BSRB þar sem klifað er á mikilvægi velferðarkerfisins, kerfis sem forystan sjálf samþykkti að skera niður við trog. Þetta kallast víst að vera samkvæmur sjálfum sér nú til dags.
Mikið er nú talað um að „tunna“ Alþingi og ríkisstjórnina frá völdum með tilheyrandi slætti og hávaða – í takt við sjálfsprottinn mótmælafund við þingsetninguna hér á dögunum þegar hátt í tíu þúsund manns mættu á Austurvöll til að mótmæla ástandinu í landinu.
Svo sannarlega veitir ekki af mótmælum á Austurvelli. En það er ekki síður þörf á því að launþegar mæti við höfuðstöðvar svokallaðra „samtaka launafólks“ og „tunni“ forystumennina þar frá völdum. Þeir eru ekki að vinna fyrir umbjóðendur sína, þeir eru eingöngu að vinna í eigin þágu í góðri samvinnu við atvinnurekendur. Þetta lið þarf að „tunna“ út sem allra fyrst.
Hrönn