Ragnheiður Elín Árnadóttir spyr hvers vegna forsætisráðherra sæki ekki leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins?
Svarið hlýtur að vera að Jóhanna hafi öðrum hnöppum að hneppa.
Ragnheiður segir að unnið sé að gerð nýrrar grundvallarstefnu innan Nató.
Ég fór í ferð til höfuðstöðva Nató í Brussel árið 1997. Þá var líka verið að vinna í grundvallarstefnunni. Þar sátu generálar og klóðruðu sér í hausnum.
Málið var að þá vissi enginn til hvers Nató væri frekar en nú.
Síðasta verkefni Nató hefur verið þátttaka í styrjöld austur í Afganistan. Hvað það kemur vörnum Íslands við er mjög á reiki. Þar áður stóð Nató fyrir sprengjuárásum á Serbíu.
Mikið er deilt um aðild Íslands að ESB. Í raun er erfitt að sjá að Ísland eigi meiri samleið með Nató en Evrópusambandinu.
Nema þá að við þurfum að hafa aðgang að erlendu hjálparliði sem kæmi hingað ef meiriháttar hamfarir dyndu yfir – til dæmis eldgos af stærðargráðu sem við höfum ekki séð um aldir.
Hvaða aðrir óvinir eru á ferli – ja, þeir eru ekki beinlínis á sjóndeildarhringnum.
Uppástungur um óvini eru samt vel þegnar – þótt við þyrftum kannski frekar betri varnir gegn úlfunum sem hafa verið á meðal okkar.