Ég var á gangi á Skólavörðustígnum í gærmorgun. Það er frekar fámennt í bænum þessa dagana, þennan mánudagsmorgun var eiginlega enginn á ferli. Tveir sjónvarpsmenn voru að bjástra við að taka mynd upp götuna í átt að Hallgrímskirkju.
Við tókum tal saman og þeir ákváðu að taka viðtal við mig.
Þeir þóttust vita að handbolti væri vinsælli á Íslandi en fótbolti, ég leiðrétti þá og sagði að fótbolti væri vinsælli en hins vegar væru Íslendingar betri í handbolta.
Þeir spurðu mig líka um kreppuna.
Svo fór ég að rifja upp fyrir þeim stærsta leik íslenskrar knattspyrnusögu. Það var árið 1968 þegar portúgalska liðið Benfica kom til Íslands og keppti við Val í Evrópukeppni. Í Benficaliðinu var skærasta stjarna fótboltans á þeim tíma, Eusebio. Hann hafði slegið í gegn í Heimsmeistarakeppninni á Englandi tveimur árum áður.
Stærsti leikurinn segi ég.
Jú, þarna var sett aðsóknarmet á Laugardalsvellinum sem seint verður slegið. Og eftirvæntingin var mjög mikil. Það var vissulega minna um að vera á Íslandi á þeim tíma – og þetta þótti stórviðburður. Hetja dagsins var Sigurður Dagsson, markvörður Vals, sem hélt hreinu gegn Portúgölunum.
Hins vegar var leikfyrirkomulag í Evrópukeppnum næstu árin á eftir þannig að frægustu fótboltamenn heims komu og kepptu hérna. Þá stjórnuðu peningarnir ekki öllu – og stóru klúbbarnir voru ekki bara að keppa innbyrðis. Barcelona spilaði hérna og Real Madrid, Olympiakos, Panaþinaikos, Juventus, Hamburger SV, Aston Villa, Everton og Liverpool.