Júlíus Sólnes prófessor sendi þessa grein og skýringamyndina sem fylgir með.
— — —
Lækkun húsnæðisskulda eða breyting lánskjaravísitölu
Nú á sér stað furðuleg umræða um almenna lækkun húsnæðisskulda landsmanna með því að lækka höfuðstól þeirra um ein 20% eða svo. Margir halda því fram, að verði að þessu muni bankakerfið, Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðirnir fara endanlega á hausin. Verðmiðinn sé um 200 milljarðar miðað við, að húsnæðisskuldirnar séu 1000 milljarðar. Svo er að sjá, að fjölmiðlar, einkum ríkisfjölmiðlarnir, líti svo á, að ríkissjóður verði að greiða þennan kostnað nánast sama dag og leiðrétting á sér stað. Menn virðast ekki átta sig á því, að heildarupphæð húsnæðislánanna, segjum 1000 milljarðar, er bókfært virði þeirra miðað við að þær innheimtist að fullu á 25-40 ára lánstíma þeirra. Er það líklegt? Þúsundir heimila ráða ekki við að greiða af stökkbreyttum verðtryggðum húsnæðislánum og því sennilegt, að mikil afföll verði á virði lánasafnsins á næstu árum. Gæti verið að með því að lækka höfuðstól lánanna um 10-15%, verði innheimtan öruggari og lánastofnanir innheimti hærra hlutfall skuldanna en ella, ef til vill meira en sem nemur höfuðstólslækkuninni. Þá er talað um, að með einhliða lækkun höfuðstóls húsnæðislána með valdboði, verði stjórnvöld skaðabótaskyld, þannig að þetta sé einfaldlega ekki hægt nema með samþykki allra kröfuhafa eða lánveitenda.
Í ágætri grein sem birtist í tímaritinu Vísbendingu í september 2009, er fjallað um lánskjaravísitöluna. Þar er minnt á, að henni hefur tvívegis verið breytt, árin 1989 og svo 1995. Við það lækkaði höfuðstóll lána umtalsvert á næstu árum eftir breytingarnar. Kvartaði engin lánastofnun yfir því. Að minnsta kosti var ekki heimtað, að ríkið væri skaðbótaskylt. Á meðfylgjandi teikningu sem er aðlöguð eftir mynd í greininni í Vísbendingu, má sjá þessar breytingar. Þar sést, að lánskjaravísitalan sem var í gildi árin 1989-1995, stendur í rétt tæpum 260% miðað við 100% viðmiðunarárið 1995, en nýja vísitalan sem enn er í gildi, er 200%. Þannig er höfuðstóll húsnæðislána um 20% lægri í september 2009 en sá sem vísitalan 1985-1995 hefði leitt af sér. Af hverju fara lánastofnanir ekki í skaðabótamál við ríkið út af þessu?
Hér er varpað fram þeirri hugmynd að breyta vísitölunni í þriðja sinn með einfaldri aðgerð, það er að hreinsa burt allar innlendar skattbreytingar og önnur álíka ósanngjörn áhrif. Það er ef til vill ekki óeðlilegt, að lánskjör Íslendinga versni við að kaffi hækkar í Brazilíu, en það gildir ekki þegar ríkið hækkar virðisaukaskatt skyndilega um 1%, eykur tekjuskatt eða álögur á áfenga drykki. Á sama hátt geta sparifjáreigendur ekki ætlazt til, að bankainnistæður þeirra hækki vegna þessa. Tökum dæmi frá stóru nágrannalandi okkar, Þýzkalandi. Þar stendur fyrir dyrum að hækka virðisaukaskatt um heil 3%, úr 16 í 19%, til að rétta af fjárhag ríkisins. Skyldi einhverjum þýzkum sparifjáreiganda detta í huga að heimta hlutfallslega hækkun á bankainnistæðu sinni af þeim sökum eða lánastofnunum að hækka húsnæðislán? Ég hef ekki tök á að reikna út hvað lánskjaravísitalan myndi lækka við að hreinsa burt innlendar skattbreytingar. Fel öðrum að gera það. Það gæti ef til vill numið rúmlega 10 prósentum og er sýnt á meðfylgjandi teikningu. Þessi breyting þyrfti að vera afturvirk til 1. september 2008, en ef það kynni að skapa ríkinu skaðbótaskyldu er betra en ekki að breyta vísitölunni strax og koma þannig til móts við skuldara. Að sjálfsögðu munu verðtryggðar innistæður lækka að sama skapi sem er eðlilegt. Þetta gæti ef til vill orðið grundvöllur sátta í þessu stóra máli. Að lokum verður að taka undir með Jóhönnu, að bezta lausnin er eflaust sú að skipta um gjaldmiðil, taka upp Evru, þótt það kosti að við þurfum að ganga í Evrópusambandið.
Júlíus Sólnes