Ég er stundum spurður að því hvort ég ætli í pólitík. Jú, og í fyrra var mér boðið þingsæti sem telja mátti nokkuð öruggt.
En ég hef alltaf sagt nei – og ein aðalástæðan er sú hvað mér þykir erfitt að sitja á fundum.
Sumt fólk er á fundum alla daga, kannski mörgum sinnum á dag – það eyðir mestum vinnutíma sínum á fundum. Og það þarf líka að vera á fundum utan eðlilegs vinnutíma.
Fundir eiga það yfirleitt sammerkt að þeir eru of langir. Það eru alltaf einhverjir sem taka fundi í gíslingu, tala of lengi, segja almælt tíðindi. Jú, og það er auðvitað til fólk sem er fundafíklar.
Ég hef lengi dáð Ingvar Kamprad, stofnanda IKEA. Mér skilst að í fyrirtæki hans sé reglan sú að fólk skuli standa á fundum og það séu ekki veitingar. Kamprad skilur semsagt gildi þess að stytta fundi. Það gera ekki allir.
Líf stjórnmálamanna fer að miklu leyti fram á fundum. Og ég get eiginlega ekki láð þeim þótt þeir sofni stundum á fundunum.
Ef þeir eru þá ekki bara að hlusta með lokuð augun?