Einhver náungi sem skrifar stundum athugasemdir hér á vefinn fór að tala um lattedrekkandi fólk.
Ég fór að velta þessu fyrir mér, hvort það væri pólitísk afstaða að drekka latte.
Þessi drykkur er upprunninn á Ítalíu þar sem drykkja espressokaffis varð vinsæl eftir stríðið. Þessi aðferð var fundin upp árið 1901.
Hún barst svo út um alla veröld, kom til Íslands við stofnun Mokkakaffis á Skólavörðustíg en einnig var um tíma starfandi Espressobar í húsi sem nefndist Uppsalir í Aðalstræti.
Í raun má segja að lattedrykkjan þróist í gegnum Ameríku – þess er reyndar að gæta að einkum í Frakklandi drekka menn á morgnana Café au lait, kaffi með stórum skammti af flóaðri mjólk.
En það er í Ameríku að lattestaðirnir breiðast út – þá fyrst og fremst Starbuck´s. Þá er eins og geri vart við sig óseðjandi mjólkurþörf, því í raun er latte ekki annað en mjólk með smá kaffidreitli út í.
Þessi tíska breiðist svo til Bretlands þar sem er starfandi fjöldi slíkra staða – og svo til Íslands. Í Miðjarðarhafslöndum eru færri svona staðir enda ekki siður að nota svo mikla mjólk út í kaffi. Það gerir menn þreytta og slappa í hitanum.
Nú er á Íslandi ótrúlegur fjöldi lattestaða. Þar er fyrst að nefna keðjurnar Kaffitár og Te & kaffi. Latte er hægt að fá í nánast hverju einasta plássi á Íslandi. Sjómaður skrifaði mér og sagði að það væri hægt að fá latte á togara þar sem hann hefur skipsrúm.
Það er semsagt ótölulegur fjöldi Íslendinga sem drekkur latte – það hlýtur að vera til að standa undir allri þessari starfsemi. Í Ameríku er Starbuck´s eitt helsta bólvirki kapítalismans. Og þá má spyrja hvaða pólitísk afstaða felst í því að drekka latte (sumir hafa reyndar græjur til að búa til latte heima hjá sér) og hvort hún er önnur en pólitík þeirra sem hella upp á með gamla laginu og nota Kaaber eða Bragakaffi.
Eða er Bragakaffi ekki ennþá framleitt?