Lesandi síðunnar sendi þessar línur.
— — —
Í núverandi fjármálakreppu er Landic stærsta gjaldþrotið í fasteignabransanum á Norðurlöndum.
Slóð Landic í Danmörku og Svíþjóð er skrautleg orgía af skuldsettum yfirtökum, yfirverði, uppblásnum goodwill og veðsetningu langt yfir skorsteininn. Fyrir nokkrum mánuðum var skipt um framkvæmdastjóra, 365-FL-maðurinn Viðar Þorkelsson tók við af Skarphéðni Berg Steinarsyni.
Í millitíðinni fer Landic í skuldahraðhreinsun og skiptir um nafn. Landic fer á hausinn með skuldir upp á 120 miljarða og heitir núna Reitir með eignir upp á 90 miljarða.
Í stuttu máli : “ fjárhagsleg endurskipulagning” breytir mínus 120 miljörðum í plús 90 miljarða. Reitir er nú í eigu bankanna. Hverjir fá nú að “kaupa” Reiti af bönkunum ?
Ef almenningur ætti kost á afskriftum í sömu hlutföllum gæti dæmi eins og Landic komið 10.000 manns réttu megin við núllið, miðað við skuld upp á 12 miljónir sem eftir afskrift yrði eign upp á 9 miljónir pr. Mann/fjölskyldu.
Risavaxnar upphæðir flæða þannig út úr bankakerfinu í formi afskrifta og það eina sem hefur breyst eftir hrun eru formerkin. Svona virðist fara fyrir aföllunum á milli gömlu og nýju bankanna
Annað fyrirtæki á leið úr skuldahraðhreinsun er Samskip og Óli (”al Thani” ?) Óla gerir “comeback”.
Ekki er spurt hvort heldur hvenær Nonni & Jói fá Haga á silfurfati. Sennilegur tímapunktur er í glundroðanum vegna bankaskýrslunnar eða Icesave.
Á meðan má almenningur éta það sem úti frýs. Engar afskriftir á stökkbreyttum lánum,einungis plástrar og gálgafrestir.
Átti ekki nýtt Ísland að rísa úr rústunum ?
Hvar er þetta nýja Ísland ?