Samfylkingarkonan Margrét Kristmannsdóttir, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, æsir sig yfir því að reynt skuli að hreinsa út úr bönkum og fjármálastofnum fólk sem var viðriðið hrunið.
Þetta gerði hún í blaðagrein í morgun og í viðtali við Stöð 2 í kvöld.
Þetta er einkennilegur málflutningur.
Bankarnir þurfa að minnka verulega frá því sem nú er. Störfum þar fækkar mikið. Erlendir kröfuhafar eignast Íslandsbanka og Kaupþing; það er spurning hvort yfirleitt verður ástæða til að starfrækja Landsbankann í framtíðinni. Nafn hans er allavega gerónýtt.
Kannski er ekki annað að gera við Landsbankann en hið sama og Rómverjar gerðu við Karþagó eftir þriðja Púnverjastríðið: Plægja upp jörðina þar sem hann var og strá salti í plógförin.
Framtíð Íslands liggur örugglega ekki í fjármálaþjónustu. Hver vill kaupa fjármálaþjónustu af Íslendingum?
En Margrét hefur áhyggjur af fólkinu sem starfaði í bönkunum. Gott og vel.
Auðvitað hefur maður ekki neitt upp á almenna starfsmenn bankanna að klaga, konurnar í gjaldkerastúkunum bera ekki ábyrgð. En hinir eiginlegu hrunsmenn eru víða við störf ennþá Aðrir yfirgáfu pósta sína alltof seint eftir hrunið – í skilanefndunum eru meira að segja menn sem eru nátengdir skuldakóngum útrásarinnar.
Margrét hefur áhyggjur af því að þetta fólk fari úr landi. Hún óttast að ómetanleg þekking týnist.
Vilhjálmur Bjarnason svaraði henni ágætlega í fréttum:
„Ef það vill fara til útlanda og byggja upp viðskiptalíf með sama hætti og það gerði hér, þá segi ég bara, verði þeim að góðu.“