Það er nú svo að allar mælingar á viðhorfum íslensku þjóðarinnar sýna að hún vill velferðarkerfi, en til dæmis ekki kvótakerfi.
Ef við færum í þjóðarætkvæði um þessi mál, þá væri einboðið hver niðurstaðan væri.
Ragnar Árnason prófessor telur að Íslendingar hafi ekki efni á velferðarkerfi lengur en kvótkerfið í sjávarútvegi sé svo nauðsynlegt að ekki megi hrófla við því.
Við skulum íhuga hvernig þessi sýn prófessorsins lítur út.
Sjávarútvegurinn er þegar skuldsettur upp á meira en 500 milljarða króna. Það er búið að taka geysilegar fjárhæðir út úr honum og færa burt – mikið af því út úr landinu. Kvótabraskið er af mörgum talið eitt upphafið að þeirri frumstæðu græðgisvæðingu sem varð á Íslandi; það myndaðist snögglega auðstétt í landinu – sem fékk mestu verðmæti á Íslandi gefins með einni stjórnvaldsákvörðun.
Ef við hefðum svo líka farið í það að leggja niður velferðarkerfið – þá kæmi mismununin líka fram í heilbrigðisþjónustu, menntun og grjótharðri stéttaskiptingu
Margt bendir þvert á móti til að lönd með velferðarkerfi séu betur í stakk búinn til að takast á við kreppu en önnur. Öryggisnetið kemur í veg fyrir að þeir sem missa vinnuna eða heilsuna eða verða fyrir öðrum skakkaföllum sökkvi alla leið til botns.
Má vera að það sé erfitt að reka velferðarkerfi í þessu árferði og að sums staðar þurfi að skera niður. En það var ekki velferðarkerfið sem setti þjóðina á hausinn.
En það má Ragnar svosem eiga að hann syndir á móti straumnum í sinni sturluðu frjálshyggju.