Nú stendur fyrir dyrum að velja fulltrúa á stjórnlagaþing. Það er mjög mikilvægt að vel takist til. Þetta gæti boðað nýtt upphaf í íslenskum stjórnmálum – en svo getur auðvitað verið að allt fari út um þúfur, leysist upp í úlfúð og illdeilur.
En hverja á að velja á stjórnlagaþingið?
Maður hefur heyrt að ýmsir hafa áhyggjur af því að þar verði eintómir bloggarar. Þá er hætt við að þetta yrði eins og hrafnaþing – þeir sem eru á blogginu eru að nokkru leyti þrasgjarnasti hluti þjóðarinnar. Að því leyti hefur bloggið leyst af hólmi þjóðarsálina sem eitt sinn var í útvarpinu.
Um daginn las ég líka að netið hefði þau áhrif á fólk að það gæti ekki hugsað heila hugsun. Það er alltaf að koma upp eitthvað nýtt sem þarf að skoða og taka afstöðu til, hraðinn er svo mikill – þess var getið að þeir sem væru alltaf á netinu ættu erfitt með að lesa langar bækur.
Varla viljum við að stjórnlagaþing lendi í höndum stjórnmálamanna eða sérhagsmunapotara – jú, og bloggararnir eru varasamir líka.