Nú er nóg búið að þrasa um umboðsmann skuldara.
Góð býtti væru að sleppa því að búa til þetta embætti – og að ráðherrann og ríkisstjórnin einhentu sér í staðinn í að gera eitthvað í alvörunni fyrir skuldsetta einstaklinga, fjölskyldur, heimili og fyrirtæki.
Því þetta er stærsta fíaskó stjórnarinnar, að hafa ekki tekið á þessum vanda strax og hún settist að völdum. Í því felst stóri áfellisdómurinn um dugleysi hennar.
Þetta eru þeim mun meiri vonbrigði þegar horft er til þess að málefni skuldara og húsnæðislán voru alltaf sterkasta hlið Jóhönnu Sigurðardóttur. Kannski er ekki of seint að setja hana í málið – þá mætti jafnvel gera uppstokkun á ríkisstjórn, Steingrímur gæti orðið forsætisráðherra og Jóhanna færi í félagsmálin. Það væri í raun miklu eðlilegri verkaskipting í ríkisstjórninni.
Ef þetta verður ekki gert er svosem hægt að ráða einhvern í hið margumrædda djobb umboðsmanns skuldara. Best er þá væntanlega að auglýsa það upp á nýtt. En hitt væri svo miklu betra, þótt seint sé í rassinn gripið.