Mér finnst best að lesa í láréttri stellingu, liggjandi uppi í sófa eða rúmi. Þegar ég var strákur lá ég oft á gólfinu og las.
Ég veit ekki hvað ég les að meðaltali margar bækur í viku, en á náttborðinu hjá mér er yfirleitt stór stafli. Sumar bækur les ég spjalda á milli, ég skima í gegnum aðrar. Það er farið að gerast oftar en áður að ég byrja á bókum og hætti svo að lesa þegar ég finn að þær höfða ekki til mín. Um daginn keypti ég til dæmis bók sem heitir Blood’s a Rover eftir James Elroy. Hún er með eindæmum endurtekningasöm og langdregin – ég er að hugsa um að leggja hana til hliðar. Einhvern tíma hefði ég klárað hana, nú finnst mér ég ekki hafa nógan tíma.
Tvær bækur hef ég hins vegar lesið í sumar sem ég ætla að lesa aftur: Annars vegar bók sem nefnist Ill Fares the Land eftir sagnfræðinginn Tony Judt og hins vegar bók sem nefnist In Defence of the Enlightenment eftir heimspekinginn Tzvetan Todorov.
Af hverju ég skrifa þetta? Jú, ég hef verið að lesa greinar þar sem sagt er að e-bókin sé að taka yfir.
En – nóg hangir maður í tölvunni eða fyrir framan skjái – og ég skal kannski kíkja á e-bækur þegar er hægt að lesa þær með góðu móti í rúminu – og líka sofna út frá þeim.