Loksins stíga fram tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem segjast vera fylgjandi einkavæðingu á auðlindum og þar af leiðandi Magma-sölunni. Þetta eru þau Pétur Blöndal og Ragnheiður Elín Árnadóttir. Það er næstum hressandi að fá þessi gamalkunnu viðhorf inn í umræðuna, varla að neinn þori að flagga þeim núorðið.
Meira að segja Mogginn er búinn að missa trúna á einkaframtakið – og Sjálfstæðisflokkurinn hvatti til þjóðareignar á auðlindum á síðasta landsfundi. Varla hægt að finna neina hægristefnu í landinu lengur – enda snúast stjórnmálamennirnir aðallega eftir því hvaðan óánægjuvindarnir blása í það og það skiptið.