Ég hef áður skrifað að það sé rannsóknarefni hvernig Íslendingar fara að leita fyrirmynda í Bretlandi á síðasta hluta tuttugustu aldar. Á útrásartímanum var London svo orðin önnur höfuðborg okkar; hugmyndastraumarnir lágu þaðan til Íslands.
Þetta hefst að miklu leyti með frjálshyggjunni og thatcherismanum – sú stefna var flutt inn hrá frá Bretlandi. Davíð Oddsson verður svo forsætisráðherra, hann er áhugamaður um bresk stjórnmál. Fókusinn á það sem er að gerast í Bretlandi verður mjög þröngur – síðan kemur Samfylkingin sem hrífst mjög af hugmyndum og framgöngu Tonys Blair. Blair var í raun ekki annað en pínulítið útvötnuð útgáfa af Thatcher.
Bretland er samfélag þar sem ríkir feikileg stéttaskipting og ójöfnuður. Stjórnmálakerfið þar er staðnað í viðjum einmenningskjördæma sem tryggja sömu gömlu flokkunum völd á víxl – og þarna ríkir ofurhallærisleg konungsætt. En það er fjármagnið sem ríkir ofar öllu í Bretlandi; peningar og óheft neysla. Það er arfleið Margrétar Thatchers og boðskaps hennar um að það sé ekki til neitt sem heiti samfélag og að það sé hægt að smætta öll mannleg samskipti niður í peninga.
Á meðan fórum við Íslendingar að líta niður á Norðurlöndin, þau samfélög sem við ættum jafnan að eiga mesta samleið með. Í frægri skýrslu Viðskiptaráðs stóð beinlínis að Íslendingar væru fremri Norðurlandabúum.
Og þá má ekki gleyma Þýskalandi. Hvað varðar stjórnarfar og efnahag er Þýskaland eitthvert best heppnaða ríki í veröldinni. Stjórnarskráin þýska er sérstaklega gott plagg. Þjóðverjar hafa áhuga á Íslendingum og eru fjarska velviljaðir í okkar garð. Þeir lesa meira að segja íslenskar bækur. Bretar hafa hins vegar aldrei haft neinn áhuga á Íslandi – nema kannski stutta hríð þegar Baugsmenn þvældust upp á aðalgötur breskra bæja með sjoppur sínar.
Jónas Kristjánsson mælir með því að við fáum Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, til að segja íslensku ríkisstjórninni til.