Á árunum sem Björgólfur Thor Björgólfsson efnaðist í St. Pétursborg var hún glæpahöfuðborg Rússlands.
Í merkri bók sem nefnist Black Earth skrifar bandaríski blaðamaðurinn Andrew Meier meðal annars um Pétursborg á árunum í kringum 2000. Maier bjó þá í Rússlandi og vann að sinni miklu bók sem er ein sú vandaðasta sem fjallar um Rússland eftir fall kommúnismans.
Hann segir að á þessum tíma hafi borgin verið bæli þjófa og spilltra stjórnmálamanna. Morð voru þar daglegt brauð, eitt hið frægasta var árið 2000 þegar fjármálastjóri brugghússins Baltika var drepinn af launmorðingja. Stríð milli glæpasamtaka geisuðu um alla borgina. Skipulögðu glæpasamtökin, grupiroviki, stjórnuðu í raun borginni. Á þessum tíma tekst Björgólfum að verða ríkir á því að brugga áfengi.
Það stappar nærri bilun að Björgólfur og faðir hans – maður sem skildi eftir sig sviðna jörð eftir viðskipti á Íslandi – skyldu fá að kaupa elsta og virtasta banka Íslands.
Björgólfur hefur svo haldið áfram viðskiptum víða um Austur-Evrópu, ekki síst í Búlgaríu sem er frægt glæpabæli. Margir eru þeirrar skoðunar að það hafi verið mikil mistök að hleypa Búlgaríu inn í Evrópusambandið – þar hefur nefnilega lítið sem ekkert verið gert til að uppræta glæpastarfsemina sem er eins og plága í landinu.
Björgólfur Thor segist nú ætla að borga skuldir sínar. Jú, hann ætlar að passa upp á að missa ekki endanlega tökin á Actavis. En ætla hann og pabbi hans að borga Icesave?
Þá fyrst værum við farin að tala saman.