Það er merkilegt að sjá hversu fjölbreyttar manntegundir maður sér hér í Tyrklandi.
Maður áttar sig á því hvílíkur hrærigrautur þjóða- og þjóðarbrota Anatólíuskaginn hefur verið í gegnum tíðina.
Hér sér maður smávaxið dökkt fólk en líka hávaxið og ljóshært og allt þar á milli og alls kyns andlitsfall. Margbreytileikinn kemur manni mjög á óvart.
Uppruni fólksins sem byggir Tyrkland er líka mjög margvíslegur og í raun mjög erfitt að átta sig á honum – og mun vera eldfimt efni í Tyrklandi.
Hinir eiginlegu Tyrkir komu hingað fremur seint, austan af sléttum Asíu. Þeir hafa blandast við fólk af grískum, kúrdískum, búlgörskum, armenskum, albönskum, bosnískum, sirkassískum, írönskum, assýrískum og arabískum uppruna, auk þess sem hér hafa verið gyðingar og sígaunar og fleiri þjóðir.
Þannig er þjóðernið alls ekki einhlítt í þessum heimshluta. Það er heldur ekki gefið að þeir Grikkir sem maður hittir séu afkomendur fornra Aþeninga eða Spartverja. Þeir gætu alveg eins verið komnir af Albönum eða Búlgörum.