Í morgunkorni Íslandsbanka segir að skuldir Íslands séu nú 99 prósent af landsframleiðslu. Þetta er gríðarlega há og ógnvekjandi tala. Almennt er talið að skuldir eigi alls ekki að vera meira en 90 prósent af landsframleiðslu, 60 prósent hefur verið viðmið Evrópusambandsins, en erfiðlega hefur gengið að fylgja því. Skuldaaukning íslenska ríkissins var mjög hröð og skýrist af falli bankanna, gjaldþroti Seðlabanka og hrundum tekjustofnum.
Ef ekki er brugðist við er hætt við að Ísland festist í skuldakreppu til langframa sem getur virkað lamandi á hagkerfið. Vaxtagreiðslurnar geta orðið hrikalegar og greiðsluflæðið mjög hamlandi.
Niðurskurðurinn sem þarf til að koma í veg fyrir þetta er eitt erfiðasta verkefni sem nokkurn tíma hefur blasað við íslenskum stjórnmálamönnum – og það er gríðarlega vanþakklátt. Það er mikil spurning hvort þeir ráði yfirleitt við þetta. Vinnubrögð á Alþingi og í ríkisstjórn benda ekki til þess.