Árna Páli Árnasyni má hrósa fyrir að tala beint út um vandann sem steðjar að ríkissjóði. Það hafa ekki aðrir stjórnmálamenn gert. Fjárlagagatið sem þarf að stoppa upp í næstu árin er eitthvað um 100 milljarðar króna. Eða eins og Árni segir – það þarf að spara sirka eina krónu af hverjum sex sem nú er eitt.
Þetta er stærsta og erfiðasta viðfangsefni sem blasir við stjórnmálamönnum núna, og mikil þörf á að náist samstaða um aðgerðirnar. Flatur niðurskurður mun ekki ganga, það er leið heigulsins sem þorir ekki að ráðast gegn vandanum. Í grein Árna kemur fram að af heildarútgjöldum ríkisins fari 70 prósent í heilbrigðis- og félagsmál, menntamál og grunnlöggæslu – í verkefni sem er mjög sársaukafullt að skera niður.
Árni segir að sé þörf á þjóðarsátt, leggur meðal annars til launafrystingu hjá hinu opinbera til ársloka 2013. Mótmæli gegn þessu eru þegar farin að heyrast. En það þýðir ekki bara að hneykslast – það þarf að fá rökstuddar og málefnalegar tillögur um hvernig við eigum að fara að þessu.