Þórarinn Eldjárn sendir frá sér í sumarbyrjun bráðskemmtilega bók með smákvæðum, rímuðum og háttbundnum, þar sem er að finna alls kyns athuganir, smáar og stórar, fleygar hugmyndir, beitta ádeilu og spekimál. Kverið nefnir Þórarinn Vísnafýsn. Hér eru fáein sýnishorn úr bókinni:
Ný ímynd
Ég er að skipta um ímynd
út á við sést ný mynd.
Hið innra einn ég svamla
áfram í því gamla.
—
Jón Sigurðsson
Sjálfstæðisins hetja heit
hafnaði öllu fúski.
Fimur vopnið fann sem beit:
Frelsaði oss með grúski.
—
Allt undir og uppi á borðum
Fjölmargir fundir
með fögrum orðum:
Allt er undir
og uppi á borðum.
Aðeins eitt
er þar boðað:
Akkúrat ekki neitt –
en allt verður skoðað.