Það eru yndislega fallegir dagar í Reykjavík.
En ég held ég hafi aldrei séð jafn marga illa drukka róna og utangarðsmenn og í Miðbænum í dag.
Á Lækjartorgi lá einn, steindauður, með buxurnar flettar niður um sig svo sást í tólin. Starfsmenn á efri hæð í nálægu húsi gerðu sér að leik að reyna að hitta í hann með smokkum fylltum af vatni.
Svo kom löggan loks og hirti hann, og stuggaði um leið við öðrum drykkjumanni sem lá sofandi á torginu. Hann rankaði aðeins við sér en sofnaði aftur um leið og löggan var farin.
Nú í kvöld sá ég svo að einn bekkurinn á torginu sem hafði verið vettvangur nokkurrar háreysti í dag var útataður í ælu en allt í kringum hann voru brotnar flöskur. Flestir útigangsmenn hverfa snemma kvölds, þeir eru náttúrlega búnir að vera að síðan um morguninn – staulast kannski upp í Farsótt – en svo vakna þeir aftur í fyrramálið, og þá er nýr dagur og ný flaska eða nýr skammtur.
Er ekki annars ein hugmynd nýrrar borgarstjórnar að fólk ættleiði róna? Sjálfur er ég reyndar löngu búinn að ættleiða nokkra – eða að minnsta kosti eru þeir styrkþegar hjá mér.