Þeir sem bera skynbragð á telja að eftirfarandi texti sé „instant klassík“ hjá Hannesi Hólmsteini – birtist á vef Pressunnar í dag.
Þarna segir Hannes að það sé allt í lagi fyrir fyrirtæki að gefa Sjálfstæðisflokknum peninga af því hann sé með atvinnulífinu, en hins vegar sé eitthvað óeðlilegt á seyði þegar þau gefa öðrum flokkum peninga:
„[…] leiða má rök að því, að venjulegu atvinnufyrirtæki sé í hag að vinna að sem hagstæðustu almennu umhverfi fyrir atvinnulífið. Útgjöld í því skyni séu jafneðlileg og útgjöld til kynningar eða áskriftargjöld að Samtökum atvinnulífsins eða Viðskiptaráðinu. Þess vegna kann að vera réttlætanlegt, að fyrirtæki styrki þá stjórnmálamenn og þá stjórnmálaflokka, sem hlynntir eru frjálsu atvinnulífi. Þegar stjórnendur almenningshlutafélags styrkja slíka aðila, eru þeir í raun að gæta hinna almennu hagsmuna hluthafanna af því, að umhverfið sé hagstætt fyrir atvinnulífið.
Þess vegna voru — og eru — styrkir fyrirtækja, stórra og smárra, til Sjálfstæðisflokksins eðlilegir, því að hann er einn flokka hlynntur frjálsu atvinnulífi, hagstæðu almennu umhverfi fyrir atvinnufyrirtæki. Á sama hátt voru — og eru — styrkir, sem stjórnendur almenningshlutafélaga veita vinstri flokkum og vinstri mönnum, óeðlilegir. Hið eina, sem vakir fyrir stjórnendum almenningshlutafélaga með slíkum styrkjum, er að kaupa einstaka menn eða flokka til einhvers, sem ekki er í samræmi við yfirlýsta vinstri stefnu þeirra.“
Mál manna er að þetta jafnist fyllilega við hinn gullvæga frasa „græða á daginn og grilla á kvöldin“.