Marinó Gunnar Njálsson reiknar saman kosningaúrslit í stærstu sveitarfélögunum, Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Akureyri. Ég vitna í þetta, Marinó er talnagleggri maður en ég. Skoðið þetta endilega hjá honum.
Samkvæmt þessu er tap Vinstri grænna gríðarlegt – andstætt því sem Steingrímur J. Sigfússon segir – flokkurinn tapar 39,4 prósentum af fylgi sínu á þessum stöðum. Samt er merkilegt að þetta kostar Vinstri græna aðeins tvo fulltrúa, þeir halda fjórum fulltrúum í þessum sveitarfélögum, eru alls staðar með.
Framsókn tapar 40,8 prósentum í þéttbýlisstöðunum.
Sjálfstæðisflokkurinn 28,4, en Samfylkingin 35 prósentum.
Það er merkilegt að ýmislegt bendir til að Sjálfstæðisflokkurinn verði ekki í stjórnarmeirihlutum í þessum fjölmennustu bæjarfélögum. L-listinn hefur hreinan meirihluta á Akureyri, í Kópavogi virðist vera í burðarliðnum meirihluti Samfylkingar, VG, Kópavogslista og Næstbestaflokks, í Hafnarfirði eru Samfylkingin og VG að tala saman, en í Reykjavík virðist að minnsta kosti útilokað að Hanna Birna Kristjánsdóttir haldi borgarstjóraembættinu.
Svo er ljóst að það eru Vinstri grænir sem taka kosningaúrslitunum langverst, samanber þennan reiðilestur Bjarna Harðarsonar þar sem hann talar um Besta flokkinn sem skammarlega atlögu að lýðræðinu og grein Ármanns Jakobssonar þar sem hann líkir Besta flokknum við graftarbólu.
Steingrímur segir nauðsyn að VG haldi sínu striki, en Ögmundur segir að þetta sé uppreisn gegn vinnulagi. Hugsanlega kemur enginn flokkur jafn sár úr kosningunum og VG?
Guðmundur Steingrímsson notar tækifærið til að leggja til atlögu við formann sinn, Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Það er sagt að Guðmundur hafi auga á formannsstólnum sem afi hans og faðir hafa áður vermt. Framsóknarflokkur undir stjórn Guðmundar yrði öðruvísi en flokkur Sigmundar; Guðmundur var í Samfylkingunni og þar eru ennþá flestir vinir hans.
Eftir kosningaúrslitin bendir margt til þess að Bjarni Benediktsson verði einn í kjöri til formanns í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi í júní. Hanna Birna Kristjánsdóttir sagðist ekki ætla að fara í formannsframboð, en hún útilokar ekki að sækjast eftir varaformannsembættinu. Hanna Birna er líka í erfiðri aðstöðu til að gegna formennskunni, hún verður líklega óbreyttur borgarfulltrúi í Reykjavík næstu árin. Kristján Þór Júlíusson á varla möguleika eftir útreiðina sem flokkurinn fékk í heimabæ hans, Akureyri.
Bæði Dagur B. Eggertsson og Jóhanna Sigurðardóttir hafa sagt að Samfylkingin ætli að taka kosningaúrslitin alvarlega. Það er spurning hvað felst í því, en einhvern veginn sýnist manni ekki vera mannabreytingar í kortunum hjá Samfylkingunni í bili, umfram fórnina þegar Steinunn Valdís sagði af sér. Það virðist enginn afgerandi forystumaður vera í sjónmáli í Samfylkingunni – Dagur tapaði stórt, Lúðvík Geirsson datt út í Hafnarfirði og Árni Páll Árnason stríðir við miklar óvinsældir.