Það eru geopólitísk stórtíðindi: Kína ætlar ekki að halda hlífiskildi yfir Norður-Kóreu í deilum við Suður-Kóreu. Munum að Kínverjar börðust með Kim Il Sung í Kóreustríðinu.
Bandaríkin halla sér æ meira að einræðisríkinu Kína. Samband þessara ríkja hefur verið mjög náið að því leyti að Kína framleiðir stóran hluta af vörum sem er neytt í Ameríku – og Kína á ótrúlegt magn af bandarískum skuldabréfum. Það eru í raun Kínverjar sem hafa fjármagnað ríkissjóðshallann í Bandaríkjunum.
Flest bendir til að þessi sambúð sé að verða enn nánara og að það geri ríkin enn háðari hvort öðru – Obama gerir sér far um að rækta sambandið við Kína, það er jafnvel farið að tala um G2 klúbbinn í því samhengi í staðinn fyrir G8 eða G20.
Hagsmunirnir eru miklir, en ýmislegt ógnar þessu bandalagi samt, skuldir Bandaríkjanna og óhófleg seðlaprentun og svo ógurleg húsnæðisbóla í Kína sem hlýtur að springa fyrr eða síðar. Svo er reyndar spurning hvenær Kína verður sá aðilinn í þessu sambandi sem hefur yfirburði?
Og í þessu samhengi þýðir ekki að láta furðuríki eins og Norður-Kóreu þvælast fyrir – jafnvel þótt það eigi kjarnorkuvopn.