Fylgið hrynur af Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni í Reykjavík, á Akureyri og í Kópavogi. Framsókn fékk hræðilega kosningu síðast þegar kosið var til sveitarstjórna og bætir ekki við sig nú. Vinstri grænir eru í losti út af gengi framboðsins í Reykjavík.
Það er gripið til ýmissa ráða á síðustu metrunum.
Hanna Birna sendir bréf inn á hvert heimili, það er persónulega stílað til viðtakandans – kvenna í Reykjavík. Annars er búið að fela restina af framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík; og reyndar er þess varla getið að Hanna Birna sé í flokknum. Það er látið eins og hún sé utan og ofan við stjórnmálin, kona sem hefur aldrei unnið neins staðar nema fyrir flokkinn eða á vegum flokksins.
Steinunn Valdís segir af sér þegar einn og hálfur sólarhringur er þangað til kjörstaðir opna. Það heitir að vera með seinustu skipunum. Lyktar af hreinni örvæntingu – og tækifærismennsku. Og byggir ekki upp neitt traust.