Ég hef alltaf átt dálítið erfitt með að meika Elvis Presley. Kannski er ég bara ekki á réttum aldri. Þegar ég var lítill og móttækilegur komu Bítlarnir og blésu Elvis burt. Hann hafði verið í hernum og lék í ógurlega leiðinlegum bíómyndum.
Mjög fyndinn norskur sjónvarpsmaður var um daginn að herma eftir lífinu sem Elvis lifði síðustu ár ævi sinnar í Graceland.
Hann borðaði samlokur með hnetusmjöri og beikonni, steiktar upp úr þverhandarþykkri klípu að smjöri.
Hann hafði hóp manna í kringum sig og þegar hann vildi gleðja þá gaf hann þeim byssur.
Hann stundaði karate með vinum sínum og þeir leyfðu honum að vinna.
Hann hafði sérstakt löggumerki sem FBI hafði gefið honum.
Hann hafði 18 sjónvörp í húsi sínu.
Hann tók að minnsta kosti fimmtán tegundir af lyfjum á dag, þar á meðal fimm mismunandi sortir af svefnlyfjum.
Ég náði ekki nafninu á norska sjónvarpsmanninum, en hann setti á sig barta og gerði úr þessu hið besta grín.