Í gamla daga skiptust dagblöðin eftir flokkum og það var hægt að rýna í allt sem þar stóð með hinum frægu flokksgleraugum.
Nú er það breytt. Tengslin eru flóknari og síður sýnileg.
Í Morgunblaðinu í dag er kvartað undan því að auglýsingar frá Högum birtist nær eingöngu í Fréttablaðinu.
Það væri svosem hægt að skýra það með því að Fréttablaðið hefur miklu meiri dreifingu en Mogginn.
En það er auðvitað ekki eina skýringin.
Á móti kemur að nánast á hverjum degi birtist fjöldi auglýsinga í Morgunblaðinu frá fyrirtækjum Jóns Helga Guðmundssonar sem kenndur er við Byko.
Frá Nóatúni, Krónunni, Intersport, Byko og Húsgagnahöllinni.
Ástæðan er ekki sú að Mogginn sé svo góður auglýsingamiðill, það er hann ekki.
Blöðin eru í höndunum á klíkum sem eiga þröngra hagsmuna að gæta – Jón Ásgeir heldur enn hlut sínum í Fréttablaðinu , en á Mogganum ríkir Davíð í umboði ekkjunnar frá Vestmannaeyjum og fjárhaldsmanns hennar, Gunnlaugs Sævars Gunnlaugssonar.
Miðað við þetta voru flokksblöðin eiginlega hátíð.