fbpx
Mánudagur 26.maí 2025
Eyjan

Existu-lífeyrissjóðir

Egill Helgason
Miðvikudaginn 17. febrúar 2010 11:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigrún Davíðsdóttir fjallar um lífeyrissjóði undir yfirskriftinni Lífeyrissjóðirnir og gagnrýnið aðhald í Speglinum. Í pistlinum segir meðal annars:

Fjárfestingar lífeyrissjóðanna í Existu eru kapítuli út af fyrir sig – það var talað um Existu sparisjóði, líka tilefni til að tala um Existu-lífeyrissjóði. Þessar vikurnar fara fram harðsnúnar samningaviðræður kröfuhafa Existu um nauðasamninga og já, það er ástæða til að tala um harðsnúnar viðræður. Þarna eins og víðar er tekist á um hvort og hvernig fyrri eigendur haldi eignum og ítökum. Gríðarleg átök þó hljótt fari. Aðkoma lífeyrissjóðanna í félögum í nauðasamningum er umhugsunarverð. Þó það gildi sömu reglur um gjaldþrot og nauðasamninga sýnir reynslan undanfarið að framkvæmdin vill vera öll önnur þegar um nauðasamninga er að ræða. Þá er eins og kröfuhafar sjái litla ástæðu til að eyða tíma og fé í að fara í saumana á bókhaldinu. Þannig grafast og firnast fyrri gerðir og gjörningar.

Viðmælandi Spegilsins í stjórnkerfinu segir það umhugsunarvert að lífeyrissjóðirnir, sem beri beina ábyrgð gagnvart launþegum, hafi lítið gert í að krefjast upplýsinga um hrap stóru eignarhaldsfélaganna sem áttu Ísland. Sjóðirnir séu stórir aðilar sem hafi borið mikinn skaða – en virðist þó ekki spyrja gagnrýninna spurninga varðandi rekstur, bókhald og uppgjör þessara félaga. – Reyndar má bæta því við að skaðinn er tæplega allur kominn fram. Skortir líka að lífeyrissjóðsfélagar hafi krafið stjórnir sjóðanna reikningsskila, þá einnig siðferðislegra skila.

Þegar litið er til undanfarinna ára má segja að stórir aðilar í viðskiptalífinu hafi getað gengið að því vísu að fé fengist úr lífeyrissjóðunum. Oft þegar er nóg af einhverju er eins og þar með sé ekki farið sérlega vel með ofgnóttina. Þannig var það um fjármagnið sem flæddi um heiminn á lágum vöxtum, ekkert séríslenskt fyrirbæri. En gríðarlega sterkir lífeyrissjóðir eru að vissu leyti séríslenskt fyrirbæri. Auðvitað hin mesta blessun en gagnrýnislausar fjárfestingar þeirra voru ekki að öllu leyti blessun. Nú er talað um að lífeyrissjóðirnir þurfi að taka þátt í uppbyggingunni. Vissulega þarf fé – en það þarf líka miklu gagnrýnna hugarfar en áður og ábyrgt aðhald.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

EyjanFastir pennar
Fyrir 13 klukkutímum
Existu-lífeyrissjóðir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt