fbpx
Mánudagur 26.maí 2025
Eyjan

Ábyrgð kjósenda?

Egill Helgason
Þriðjudaginn 16. febrúar 2010 12:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margir hafa gagnrýnt Þórólf Matthíasson prófessor fyrir skrif hans um Icesave málið. En hann spyr líka spurninga sem eru áleitnar, til dæmis um ábyrgð kjósenda sem ár eftir ár kjósa yfir sig vanhæfa stjórnmálamenn sem aftur raða vanhæfum embættismönnum í stöður hjá ríkinu.

Þórólfur skrifar í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag:

Ég hef gert mig sekan um að spyrja hver ábyrgð íslenskra stjórnvalda, íslenskra stjórnmálamanna og íslenskra kjósenda á IceSave málinu sé, bæði með hliðsjón af lögum og reglum og með hliðsjón af almennu siðferði. Niðurstaða mín er að kjósendur beri ábyrgð á stjórnmálamönnum og að stjórnmálamenn beri ábyrgð á þeim embættismönnum sem þeir setja til verka.

Hátti svo til að kjósendur í lýðræðisríki kjósi, kosningar eftir kosningar, stjórnmálamenn sem setja venslamenn, vini og spilafélaga í eftirlits- og umboðsstöður án þess að huga að getu þessara einstaklinga til að sinna störfum sínum, þá er ábyrgðin á slökum verkum embættis- og eftirlitskerfisins ekkert síður kjósendanna en þeirra sem afglöpin frömdu.

Þessi ábyrgð getur birst hinum vanhæfa embættismanni í formi saksóknar og dóms. Ábyrgðin birtist almenningi gjarnan með öðrum hætti, yfirleitt í formi lakari afkomu en ella væri. Það er mín skoðun að það standi upp á Íslendinga að svara þeirri spurningu hvort íslensk stjórnvöld og íslenskir eftirlitsaðilar hafi uppfyllt allar sínar eftirlits- og aðhaldsskyldur í tengslum við stofnun og rekstur IceSave reikninganna.

Sé niðurstaðan sú að það hafi ekki verið gert þarf að taka á þeim málum gagnvart þeim einstaklingum og þeim stofnunum sem brugðust.

Jafnframt verða stjórnmálamenn að sýna þann siðferðisstyrk að segja kjósendum sínum satt og rétt um hvar reikningurinn vegna klúðursins lendir í stað þess að fara í sífelld ferðalög um lendur fantasíunnar í þessum efnum. Persónulega þykir mér sárt að sitja undir ásökunum um að ganga erinda erlendra þjóða þegar tilefnið er ekki annað en þessi einfalda spurning: bera íslenskir kjósendur ekki ábyrgð á íslenskum stjórnmálamönnum og íslenskum embættismönnum?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

EyjanFastir pennar
Fyrir 14 klukkutímum
Ábyrgð kjósenda?

Pennar

Mest lesið

Nýlegt