Þegar Steingrímur Ari Arason sagði sig úr einkavæðingarnefnd á sínum tíma sagðist hann aldrei hafa séð önnur eins vinnubrögð. Því miður hefur Steingrímur aldrei skýrt nákvæmlega hvað hann átti við.
Búnaðarbankinn var einkavæddur í hendurnar á vildarvinum Framsóknarflokksins, það var fyrrverandi ráðherra flokksins og Seðlabankastjóri, sem mætti til að ganga frá dílnum. Hópurinn sem fékk að kaupa bankann fékk lán í hinum ríkisbankanum, Landsbankanum, til kaupanna. Annars hefði hann ekki átt fyrir þessu. Það var sett upp leikrit um aðkomu „virts“ þýsks banka að nafni Hauck und Aufhauser. Það reyndist ekki vera annað en sjónarspil. Fljótlega kom í ljós að bak við tjöldin makkaði annar laukur Framsóknarflokksins, Sigurður Einarsson hjá Kaupþingi.
Landsbankinn var seldur manni með vægast sagt vafasama fortíð í viðskiptum og syni hans. Það var látið í veðri vaka að þeir væru að koma með stórar fjárhæðir inn í landið. Ríkidæmi þeirra reyndist þó vera sjónhverfing eins og margt annað á Íslandi þess tíma – þeir létu vikapilt hjá sér suða út lán í Búnaðarbankanum til að standa straum af kaupunum á Landsbankanum. Til að tryggja að áfram yrði beint samband milli bankans og stjórnarráðsins var nánasti ráðgjafi forsætisráðherrans gerður að varaformanni bankastjórnarinnar.
Bankarnir voru seldir á furðulega lágu verði. Þegar var búið að meta lánasafn Landsbankans fengu Björgólfar meira að segja afslátt af bankanum. Þess var vandlega gætt að alvöru erlendir bankar kæmust ekki að. Fyrirheit um dreifða eignaraðild voru svikin á síðustu stundu.
Það er alveg rétt hjá Ögmundi Jónassyni. Þetta er ógeðslegt spillingarmál og á ekki fyrnast eða gleymast. Ef rannsóknarnefnd Alþingis fer ekki í saumana á þessu máli þarf að rannsaka það sérstaklega.