Ég á eiginlega ekki orð yfir Nauthólsvík og Vatnsmýri.
Í Nauthólsvíkinni er risin stórbygging Háskólans í Reykjavík með endalausum bílastæðum sem teygja sig niður að sjó og upp í Öskjuhlíð.
Bragð er að þá barnið finnur. Drengurinn Kári spurði: „Hvað er þessi bygging að gera hérna? Ég vil hafa skóg!“
Í Vatnsmýri fjölgar stanslaust bílagötunum, svæðið er gjörsamlega sundurskorið af akvegum. Nú hefur bæst við gatan Hlíðarfótur. Maður veltir því fyrir sér hvort þeir sem bera ábyrgð á þessu skipulagi séu með réttu ráði.
Ég fór þarna um í dag með fjölskyldunni, á reiðhjólum. Það er einstaklega þunglyndislegt að þurfa að skrölta yfir allar þessar stóru bílagötur til þess eins að komast úr Þingholtunum og út í Nauthólsvík.