Um tíma reyndi hópur fjölmiðlamanna á Íslandi að halda því fram að skipti ekki máli hverjir ættu fjölmiðlana.
Það var alla tíð holur málflutningur.
Hugsanlega hafði eignarhaldið einmitt þau áhrif að fjölmiðlarnir stóðu sig hraksmánarlega á tíma stórubólunnar. Þá var Fréttablaðið í eigu Jóns Ásgeirs og Morgunblaðið í eigu Björgólfs. Þessum blöðum fylgdu áróðurssneplar sem kölluðust „viðskiptablöð“.
Á tíma mikilla þjóðfélagsátaka eins og nú verður enn augljósara hvernig fjölmiðlunum er beitt í þágu eigenda sinna.
Nú er Mogginn kominn í eigu söfnuðar í kringum kvótaeiganda í Vestmannaeyjum sem virðist helst stefna að því að endurreisa Kolkrabbann.
Stuttu eftir hrun fékk Jón Ásgeir einkennilega bankafyrirgreiðslu svo hann missti örugglega ekki fjölmiðla sína. Í kvöld les maður að Jón Ásgeir sé að herða tök sín á 365 miðlum (eins og það heitir víst núna – hvað varð um Rauðsól?)
Það finnst manni fremur sérkennilegt – á tíma þegar maður myndi halda að áhrif þessa skuldugasta manns Íslandssögunnar ættu að fara þverrandi. En þvert á móti segja heimildir að hann og Pálmi Haraldsson séu að leita að tækifærum til að auka aftur völd sín í íslensku efnahagslífi.
Jóhanna Sigurðardóttir sagði í Kastljósi í gærkvöldi að hún væri oft agndofa yfir áframhaldandi umsvifum útrásarvíkinga. Það eru fleiri.