Lesandi síðunnar sendi þetta bréf.
— — —
Vandi heimilanna er eflaust mikilvægasta málið. Þennan vanda verður að leysa á viðunandi hátt. Það er of lengi búið að níðast á almenningi með óðaverðbólgu, okurvöxtum og stökkbreytingu á lánum. Hluti af þessu máli er að nýju bankarnir láti afskriftir af lánum ganga áfram til skuldara. Það vantar ennþá skjalborgina fyrir heimilin sem búið er að marglofa.
Endurreisn gjaldþrota fyrirtækja. Mörg þessara fyrirtækja eru stoðfyrirtæki í landinu. Sjá um mikilvæga þætti. Þar má nefna dreifingu, smásöluverslun, eldsneyti, tryggingar o.fl. Þessi fyrirtæki þarf að endurreisa á þann hátt að þau séu ekki með einokunaraðstöðu vegna stærðar eða samráðsaðstöðu vegna fæðar.
Fyrirtækin á að selja í hæfilega stórum/litlum einingum. Það má ekki setja fyrirtæki, sem eru orðin skuldlaus eða skuldlítil eftir afskriftir skulda, í hendur fyrr eigenda sem settu þau á hausinn.
Greiðsluáætlun og greiðsluþol landsins verður að fá á hreint. Seðlabanki Íslands hefur brugðist í þessum efnum og ekki komið með áreiðanlega og vel rökstudda greiðsluáætlun 10-20 ár fram í tímann. Hef séð drög að þessu hjá Vilhjálmi Þorsteinssyni og á hann þakkir skyldar fyrir það. Efnahagsstjórn verður að taka mið af þessu næstu árin. Icesave er einungis einn þáttur í þessu.
Lækkun á vöxtum er mikilvæg eins og forráðamenn atvinnulífsins hafa hamrað á í mörg ár.
Taka verður á kvótakerfinu. Jónas Krsistjánsson (jonas.is) hefur sett fram bestu lausnina á þeim málum. Það er að ríkið taki kvótann upp í skuldir þeirra útvegsfyrirtækja sem geta ekki greitt. Þetta er betri lausn en að afskrifa skuldir. Síðan getur tekið við afskrift á kvótanum fyrir hina, á 20 árum.
Uppgjör stjórnmálaflokkanna við fortíðina. Það er ófært annað en að flokkarnir taki til í sínum ranni. Það er óþolandi að menn og konur með vafasama fjármálagjörninga sitji á Alþingi Íslendinga. Mútur og annað sukk og svínarí á ekki að líðast og ekki heldur mannaráðningar á forsendum flokkapólitíkur.
Flokkarnir verða að sjá til þess að útbrunnir pólitíkusar séu ekki að ráðskast með fjármuni og mannauð landsins.
Uppgjör við þá sem bera ábyrgð á hruninu er forsendan fyrir vel heppnaðri endurreisn. Þarna er bæði um að ræða pólitíkusa, embættismenn og svokallað útrásarlið. Engin sátt verður án uppgjörs.
Þjóðfundur og endurskoðun stjórnarskrárinnar er löngu tímabær.