Í bókinni The Hinge of Fate, fjórða bindi stríðsminninga sinna (sem hann fékk bókmenntaverðlaun Nóbels fyrir), skrifar Winston Churchill um þá hugmynd að leiðtogar bandamanna, hann sjálfur, Stalín og Roosevelt hittist á Íslandi.
Churchill birtir bréf frá sér til Roosevelts frá 24. nóvember 1942. Þar segir að á fundi Churchills og Stalíns í Moskvu hafi Sovétleiðtoginn sagst vera til í að koma og hitta þá Churchill og Roosevelt, og hann hafi nefnt Ísland í því sambandi. Churchill segist hafa sagt að England væri heppilegra, en Stalín hafi gefið lítið út á það.
Churchill bætir við að margt mæli með þríveldafundi á Íslandi. Skip leiðtoganna gætu legið saman í Halfjord (svo) – og síðan spyr hann Roosevelt hvort hann gæti verið fáanlegur að koma til Íslands.
Af þessum fundi varð aldrei. Það flækti málin að Churchill komst að því að Roosevelt hafði á laun lagt til við Stalín að þeir hittust tveir í Síberíu eða Alaska – skildu Churchill útundan.
Sjá blaðsíðu 594 og 595 í The Hinge of Fate.
Það endaði með því að þremenningarnir hittust í Teheran í lok nóvember 1943 og síðan í Jalta á Krímskaga í febrúar 1945 og skiptu þar upp veröldinni.