Í Kiljunni í kvöld verður fjallað um frönsku sjómennina sem sóttu fisk á Íslandsmið. Það voru stórir flotar sem á hverju ári héldu frá Norður-Frakklandi á miðin við Ísland. Aðbúnaðurinn var hrikalegur; Elín Pálmadóttir, höfundur bókarinnar, Fransí biskví, áætlar að fjögur þusund franskir sjómenn hafi fengið vota gröf við Ísland.
Elín gaf fyrir tuttugu árum út þessa bók sem er löngu uppseld. Hún er nú komin út í mjög aukinni og endurbættri útgáfa. Þetta er stórbrotin örlagasaga.
Það kemur líka fram í þættinum hvernig málarinn Van Gogh tengist frönsku sjómönnunum.
Auður Jónsdóttir rithöfundur segir frá uppáhaldsbókum sínum.
Og við förum á Hvanneyri en þar veitir Bjarni Guðmundsson forstöðu Landbúnaðarsafni Íslands. Bjarni hefur skrifað bráðskemmtilega bók sem nefnist Og þá kom Ferguson. Hún fjallar um þá byltingu sem varð í sveitum þegar dráttarvélin kom til sögunna; þetta er saga um gjörbreytingu á atvinnuháttum sem höfðu tíðkast frá alda öðli.
Páll og Kolbrún ræða um Hvítan tígur eftir Aravind Adiga, smásagnasafnið Völsungablóð eftir Thomas Mann, ljóðabókina Rennur upp nótt eftir Ísak Harðarson – en einnig fjöllum við um styttur af skáldum sem standa í Reykjavík.
En Bragi segir frá Eufemíu Waage og ætt hennar.