fbpx
Sunnudagur 25.maí 2025
Eyjan

Hin ótrygga tilvera fjölmiðlafólks

Egill Helgason
Föstudaginn 22. janúar 2010 12:49

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar ég var að alast upp  á fjölmiðlum var atvinnuöryggi einungis að hafa á tveimur stöðum, Ríkisútvarpinu og Mogganum.

Blaðamenn á öðrum fjölmiðlum lifðu fjarska ótryggri tilveru. Gátu búist við að missa vinnuna með litlum fyrirvara, án þess að fá borgaða sérstaka uppsagnarfresti. Ég man varla eftir að þeir hafi þekkst. Á sumum fjölmiðlum voru sjaldnast borguð laun á reglulegum tíma; það var jafnvel verið að sletta í mann einhverjum smáupphæðum fram eftir mánuði. Ef það dróst lengur var fjölmiðillinn líklega feigur. Á einu blaðinu fóru starfsmenn í setuverkfall þegar launagreiðslur höfðu dregist í meira en mánuð.

Þremur dögum síðar var blaðið lagt niður. Enginn fékk neitt.

Það voru teknar af manni greiðslur í lífeyrissjóð – en það var alveg undir hælinn lagt hvort þær bárust alla leið þangað. Sjálfur veit ég ekki hve miklum peningum ég hef tapað með þessum hætti, en það er öruggt að ég geng ekki að digrum lífeyrissjóði þegar ég verð gamall. Ég geri frekar ráð fyrir að þurfa að vera að vinna þegar margir jafnaldrar mínir eru sestir í helgan stein.

Stundum gat þetta verið æði skrautlegt.

Ég man til dæmis eftir einum framkvæmdastjóranum sem maður sá aldrei í eigin persónu. Hann læddist inn á skrifstofu sína snemma morguns og sinnti því engu þótt fólk sem átti inni hjá honum ógreidd laun berði á dyrnar hjá honum allan liðlangan daginn. Hann svaraði einfaldlega ekki.

Einu sinni náði ég tali af manninum og hann játaði fyrir mér að hann væri sérfræðingur í að loka fyrirtækjum. Áður hafði hann meðal annars komið við í plássi úti á landi, lokað þar svosem einu frystihúsi og orðið svo óvinsæll fyrir vikið að hann fékk hvergi afgreiðslu, hvorki í kaupfélaginu né sjoppunni. Gekk því um matarlaus.

Ég hef unnið á mörgum blöðum sem hafa dáið drottni sínum: Tímanum, NT, Helgarpóstinum, Pressunni, Alþýðublaðinu, Eintaki, Morgunpóstinum, Heimsmynd.  Allt voru þetta ágætis blöð, en þau voru bara ekki lífvænleg. Og kjörin sem maður bar úr býtum voru mjög léleg.

Að sumu leyti var þetta af því ég var laus í rásinni, ekkert sérlega reglusamur, engum datt í hug að bjóða mér starf á Morgunblaðinu þar sem var atvinnuöryggi umfram aðra fjölmiðla.

Ég falaðist einu sinni eftir vinnu þar og þá spurði Styrmir Gunnarsson af mikilli visku:

„Egill, heldurðu að þig langi nokkuð að vinna hjá okkur?“

Og það var alveg laukrétt hjá honum, mig langaði ekkert á Moggann.

En Mogginn var semsagt eins og alvöru vinnustaður. Blaðamenn unnu þar allan sinn starfsaldur. Hættu svo þegar þeir komust á aldur, þáðu sín eftirlaun. Mjög sívílíserað.

Meðan blaðamenn á öðrum fjölmiðlum voru upp til hópa í tómu basli. Sífellt að missa vinnuna. Einu sinni reyndi ég að spyrja Blaðamannafélagið hvort ég gæti fengið atvinnuleysisbætur.

Það var mjög kjarnmikil kona sem starfaði þá á skrifstofu félagsins. Hún sagði að það kæmi ekki til greina. Það væri bara einn maður sem mætti þiggja atvinnuleysisbætur hjá félaginu, gamall og litríkur félagi sem allir vissu að yrði aldrei ráðinn í vinnu aftur.

Hún hringdi í mig daginn eftir og sagðist vera búin að redda mér vinnu. Á Samúel. Ég mætti aldrei þangað.

Aftur að Mogganum, þar breyttist þetta fyrir nokkrum árum. Allt í einu var stórveldið Mogginn kominn í bullandi vandræði, vegna óstjórnar, offjárfestinga og trúar á að blaðið væri stofnun sem myndi lifa að eilífu. Mogginn  fór að segja upp starfsmönnum sem höfðu verið þar lengi, og áttu ekki von á öðru en að fá að vinna þar alla starfsævina. Nú eru sárafáir eftir af þessum gömlu Morgunblaðsmönnum – ég verð að segja að ég hef mikla samúð með þeim. Sextugir blaðamenn ganga ekki svo auðveldlega inn í ný störf.

Árið 1999 datt einhverjum í hug að setja mig í sjónvarp. Og þar hef ég verið síðan. Þetta var ekki mín hugmynd. Ég bjóst heldur aldrei við því að vera svona lengi þar. Þetta eru að verða ellefu ár, á þremur stöðvum. Á einni þeirra var mér sagt upp – Skjá einum. Það var árið 2003. Ég var atvinnulaus frá maí fram í nóvember það ár. Svo blessaðist það allt. En ég veit af gamalli reynslu að flest er mjög ótryggt í þessari grein. Þetta er ekki ósvipað leikhúsinu eða kvikmyndunum; það liggur í eðli fagsins að atvinnuöryggið er lítið. Ekki hjálpar að þetta er örmarkaður og kjörin frekar bág. Það geta fáir búist við feitri starfslokagreiðslu. Sjálfur ímynda ég mér ekki að ég verði á skjánum til eilífðarnóns.

Hvers vegna ég skrifa þetta?

Jú, það eru margir ágætir starfsfélagar mínir að missa vinnuna á Ríkisútvarpinu – og reyndar víðar í fjölmiðlum. Það er mjög leitt. En eins og ég segi er það gömul saga og ný. Það var til dæmis ekki gaman í kreppunni sem hér var í kringum 1990, þótt hún væri smá í samanburði við þá sem nú hrellir okkur. Ég vona að hjá þeim flestum leynist tækifæri í þessum viðskilnaði. Það er oft þannig.

— — —

Við þetta er allt í lagi að bæta að umræða um RÚV er oft á fremur ósanngjörnum nótum. Strax í nóvember í fyrra var gripið til mikils niðurskurðar hjá félaginu. Laun voru lækkuð um ákveðnar prósentutölur, mest hjá þeim sem höfðu hæst launin. Þetta átti að vera tímabundin aðgerð, en þessi skerðing er enn í gildi. Um leið voru laun fryst – a.m.k. hjá hluta starfsmanna – þannig að vísitöluhækkanir hafa ekki komið til framvæmda.

Annað sem þarf að leiðrétta er umræða um að einungis konum sé sagt upp störfum. Jú, það er verið að segja upp þulunum – ég held reyndar að það hafi fyrir löngu verið orðin tímaskekkja að láta ljóshærðar konur kynna dagskrárliði.

Kastljósið þarf að draga mjög saman seglin. Þar er sagt upp þremur starfsmönnum og vill svo til að það eru allt konur. En þá er á það að líta að fyrir uppsagnirnar störfuðu fimm konur í Kastljósinu og einn karl. Eftir uppsagnirnar eru þar tvær konur, Þóra Arnórs og Ragnhildur Steinunn  – og hann Sigmar.

Svo er það ályktunin frá VG þar sem sagði að ungar, vellaunaðar sjónvarpsstjörnur væru teknar fram yfir gamalreynda útvarpsmenn. Enginn sem ég hef talað um hjá Ríkisútvarpinu kannast við þessar ungu velllaunuðu stjörnur. Þær eru hreinn hugarburður. Og hvað varðar gamalreynda útvarpsmenn þá er sem betur fer nóg af þeim á RÚV. Ég nefni: Gunnar Gunnarsson, Jón Guðna Kristjánsson, Sigrúnu Davíðsdóttur, Óðin Jónsson, Arnar Pál Hauksson, Ásgeir Tómasson og Brodda Broddason – gleymi ábyggilega einhverjum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt